Kristján Ágústsson fæddist 31. janúar 1938 í Auraseli í Fljótshlíð. Hann lést á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Kirkjuhvoli á Hvolsvelli 11. september 2024.

Foreldrar hans voru Ágúst Kristjánsson frá Auraseli í Fljótshlíð, f. 18. desember 1897, d. 3. ágúst 1983 og Guðbjörg Guðjónsdóttir frá Hamragörðum undir Eyjafjöllum, f. 6. október 1898, d. 18. janúar 1996. Systkini Kristjáns eru: Sigríður, f. 1933, d. 2011, Eyvindur, f. 1937 og Bóel, f. 1939, d. 2018. Þegar Kristján var níu ára fluttist fjölskyldan frá Auraseli að Snotru í Austur-Landeyjum. Sem ungur maður vann Kristján að búskapnum með foreldrum sínu en sótti auk þess átta vertíðir í Vestmannaeyjum.  Eftir þetta bar hann alla tíð hlýjan hug til Vestmannaeyinga og eignaðist þar góða vini.

Kristján kvæntist árið 1961 Gerði Stefaníu Elimarsdóttur, f. 19. nóvember 1937 á Ljótarstöðum í Austur-Landeyjum. Gerður lést 8. ágúst 2020.

Börn þeirra eru: 1) Ágúst, f. 11. febrúar 1961, kvæntur Gunnhildi Eddu Kristjánsdóttur. Börn: a) Stefanía. Eiginmaður Mikael Torfason. b) Bríet Rún. Sambýlismaður Birkir Snær Ingvason. c) Karítas. Sambýlismaður Arnar Guðjón Skúlason. 2) Hrafnhildur Rósa, f. 7. mars 1962, gift Fannari Jónassyni. Börn: a) Birkir Snær. Eiginkona Guðrún Ásta Gísladóttir. b) Kara Borg. Sambýlismaður Karl Daníel Magnússon. c) Rakel Hrund. Sambýlismaður Kolbeinn Elí Pétursson. 3) Haukur Guðni, f. 26. nóvember 1963, kvæntur Guðmundu Þorsteinsdóttur. Börn: a) Hlíf. Eiginmaður Vignir Stefánsson. b) Elimar. Eiginkona Sigríður Ösp Sumarliðadóttir. c) Hrafnhildur. Sambýlismaður Ágúst Elí Björgvinsson.

Barnabarnabörnum fjölgar og eru orðin á þriðja tuginn.

Gerður og Kristján hófu búskap í Hólmum í Austur-Landeyjum árið 1960, en fluttu í Stóragerði 7 á Hvolsvelli árið 2002. Þeim hjónum búnaðist vel í Hólmum og þar ráku þau myndarbýli með blandaðan búskap. Kristján var virkur í félagsmálum bæði innan sveitar og utan. Hann var lengi félagi og stjórnarmaður í UMF Dagsbrún og í Héraðssambandinu Skarphéðni. Hann starfaði einnig í búnaðarfélögum og ræktunarsamböndum og var um skeið fulltrúi á búnaðarþingum Bændasamtakanna.

Eftir búferlaflutningana tók Kristján að sér ýmis jarðvinnu- og viðhaldsverkefni fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Hann sagði heldur ekki alveg skilið við búskapinn því hann átti lengst af nokkrar ær sem hann hýsti á Hvolsvelli yfir vetrartímann, en fénu var beitt í gömlu heimasveitinni þess utan. Þegar um hægðist eftir búskaparárin gáfust betri tækifæri til að ferðast. Þau hjónin voru félagslynd og nutu lífsins í góðra vina hópi og fóru ófáar ferðirnar innan lands og erlendis.

Útför Kristjáns fer fram frá Stórólfshvolskirkju í dag, 25. september 2024, og hefst athöfnin klukkan 14.

Ég vil með þessum fáu orðum minnast míns kæra tengdaföður. Nokkrar línur og knappur texti segir þó fátt um lífshlaup hans og samskipti okkar sem vörðu í meira en 40 ár.

Kristján var fæddur inn í íslenskt bændasamfélag áður en tæknivæðing nútímans hóf innreið sína fyrir alvöru. Hann naut þeirrar skólagöngu sem tíðkaðist á þeim tímum. Fara þurfti yfir Þverá á hestum frá fæðingarbænum Auraseli til að sækja skóla upp í Fljótshlíð og eftir að fjölskyldan flutti að Snotru fór hann fótgangandi þaðan í barnaskólann á Krossi í Austur-Landeyjum. Hann fór á átta vertíðir í Vestmannaeyjum, fyrst 16 ára gamall, en þess utan stundaði hann byggingarvinnu og landbúnaðarstörf. Þó að sjómennskan hafi verið mikil erfiðisvinna á þeim tíma átti hún vel við Kristján enda var hann harðduglegur og hlífði sér hvergi hvar sem hann tók til hendinni. Hann hafði stundum á orði að vel hefði komið til greina að gera sjómennsku og útgerð að ævistarfi en örlögin spunnu honum aðra örlagavefi þar sem hann fann kröftum sínum viðnám.

Kristján og Gerður hófu búskap í Hólmum árið 1960. Gerður hafði alist þar upp og fyrstu 16 búskaparárin bjuggu uppeldisforeldrar Gerðar einnig á heimilinu. Kristján hófst þegar handa við að endurnýja útihús og brjóta land til ræktunar og áður en langt um leið var búskapurinn orðinn umfangsmikill og blómlegur. Þekking og reynsla Kristjáns af búskap og byggingarvinnu kom þar að góðum notum sem og samhjálp sveitunganna þegar kom að húsasmíðum. Nokkru síðar tók við bygging nýs íbúðarhúss þar sem enn reyndi á framtakssemi og hæfileika hans á þessu sviði.

Kristján var búhöldur góður og farnaðist vel. Hann sinnti búfénaði sínum af kostgæfni og þótti vænt um dýrin. Gestkvæmt var og tíðum margt um manninn í Hólmum þar sem Gerður stýrði heimilishaldinu af mikilli rausn og myndarskap. Hjónin voru mannblendin og glaðlynd og einatt var glatt á hjalla þegar gesti bar að garði. Ættingjar og vinir voru ávallt velkomnir og heimilið opið gestum og gangandi. Hugulsemi og umhyggja gagnvart afkomendum var óskoruð, börnin nutu góðs af gjafmildi og hjartahlýju ömmu og afa og hinir fullorðnu fengu ríkulega skammta af afurðum búsins til heimabrúks. Eftir búferlaflutningana í Hvolsvöll reisti Kristján allstóra viðbyggingu við nýkeypta íbúðarhúsið svo að unnt væri að taka á móti allri fjölskyldunni sem sífellt stækkaði. Sem fyrr bar marga að garði og móttökur ávallt rausnarlegar og hlýjar.

Kristján var hláturmildur og glaðsinna. Hann var hjálpsamur, raungóður og einkar bóngóður. Trygglyndur var hann, ráðvandur og vinafastur og ekki var hans máti að skulda einhverjum. Hann var ekki skaplaus maður og gat verið fastur fyrir, ákveðinn og fylginn sér ef því var að skipta. Aldrei bar þó skugga á okkar samskipti og aldrei sló í orðakast með okkur. Við vörðum gjarnan drjúgum stundum við að ræða landsins gagn og nauðsynjar. Vorum þó ekki alltaf á sama máli þegar þjóðmálin bar á góma. Hafði þá hvor okkar gaman af því að ögra hinum á léttum nótum með því að þykjast styðja einstrengingslegar skoðanir sem gengu í berhögg við skoðanir hins. Þegar best tókst til hlógum við dátt.

Andlát Gerðar fyrir rúmum fjórum árum var Kristjáni mikið áfall. Hann varð í raun ekki samur eftir það þó að hann væri staðráðinn í að standa á eigin fótum án aðstoðar annarra. Lengst af var hann hamhleypa til verka og hraustur vel, viljinn óbilaður en mátturinn fór þverrandi síðustu mánuði eftir að hjartaveila ágerðist smám saman.

Kristján var einn af mínum bestu vinum. Hans er sárt saknað. Fagrar minningar um góðan mann lifa og deyfa sorgina í tímans rás.

Fannar Jónasson.