Ágúst Óskarsson fæddist á Akureyri 13. maí 1949. Hann lést 30. ágúst 2024.

Foreldrar hans voru Óskar Ágústsson, f. 8.11. 1920 á Brú í Stokkseyrarhreppi, d. 27.7. 2011, og Elín Friðriksdóttir, f. 8.8. 1923 á Miklabæ í Skagafirði, d. 15.5. 2017. Þau giftust árið 1948 og bjuggu á Laugum í Suður-Þingeyjarsýslu og á Kvisthaga í Reykjavík.

Systkini Ágústs eru: Hermann, f. 7.2. 1951, Knútur, f. 23.2. 1952, og Una María, f. 19.9. 1962.
Ágúst kvæntist Helgu Sigurðardóttur skrifstofustjóra og listakonu, f. 2.5. 1960 í Reykjavík, d. 28.8. 2022. Bjuggu þau í Ásholti 7 í Mosfellsbæ. Börn þeirra og afkomendur eru: 1) Óskar Örn, f. 12.4. 1973 (móðir: Áslaug Pétursdóttir), maki Ásta Jenný Sigurðardóttir. Saman eiga þau Ágúst Pál, Sigurð Orra og Stefán Örn. 2) Silja Rán, f. 5.9. 1978, maki Rolf Rosi. Saman eiga þau Tómas Helga, Einar Axel, Even og Tellef. 3) Heiðar Reyr, f. 18.3. 1983.
Ágúst ólst upp í Héraðsskólanum á Laugum í Reykjadal. Hann gekk í Barnaskólann Litlu-Laugum, Héraðsskólann á Laugum 1963-1966, Gymnastikhøjskolen í Ollerup í Danmörku 1966-1967, Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni 1967-1968 og Samvinnuskólann á Bifröst 1970-1972.
Ágúst hneigðist fljótt að íþróttum og byrjaði að kenna sund 11 ára gamall ásamt því að þjálfa í frjálsum íþróttum og í knattspyrnu. Þá sá hann um allmörg héraðsmót í frjálsum íþróttum fyrir bæði HSÞ og UNÞ.
Ágúst vann sumarið 1967 sem næturvörður og hótelstjóri á Hótel Akureyri og var framkvæmdastjóri fyrir Laugahátíð um verslunarmannahelgi í nokkur ár. Hann hóf kennslu sem íþróttakennari við Varmárskóla og Gagnfræðaskólann í Mosfellssveit árið 1968 og starfaði þar fyrst um sinn í tvö ár áður en hann hóf nám við Samvinnuskólann á Bifröst. Að því námi loknu sneri hann aftur til starfa við kennslu í Mosfellssveit árið 1972.
Árið 1976 stofnaði Ágúst fyrirtækið Á. Óskarsson og rak það samhliða kennslu. Árið 1983 hætti Ágúst kennslu og tók við stöðu framkvæmdastjóra íþróttamannvirkja í Mosfellssveit í nokkur ár. Að því starfi loknu sneri hann sér alfarið að rekstri fyrirtækis síns.
Ágúst var þjálfari hjá fimleikadeild KR og skipulagði og sá um fimleikasýningar á Suður- og Norðurlandi með sameinuðum fimleikaflokki karla hjá KR og Ármanni. Hann var í forsvari fyrir kvennaknattspyrnu Aftureldingar í allmörg ár og hlaut viðurkenningu fyrir þau störf. Hann hlaut einnig viðurkenningu á 50 ára afmæli Varmárlaugar í Mosfellsbæ. Hann var endurskoðandi bæjarreikninga Mosfellsbæjar, meðlimur í Félagi íslenskra stórkaupmanna, nú Félagi atvinnurekenda, stofnaðili að Íslensk-kínverska viðskiptaráðinu, félagi í Oddfellowreglunni IOOF stúku nr. 3, Hallveigu, ásamt því að vera meðlimur í Félagi frímerkjasafnara, Stangaveiðifélagi Reykjavíkur og Ferðafélagi Íslands um áratuga skeið.
Útför Ágústs verður frá Hallgrímskirkju í dag, 27. september 2024, klukkan 11. Erfidrykkja verður í Hlégarði í Mosfellsbæ.

Elsku pabbi.
Kveðjustundin kom alltof fljótt og við áttum margt óklárað. Aðeins nokkrum mánuðum eftir að við kvöddum mömmu fyrir tveimur árum varstu sjálfur kominn með greiningu. Mein sem bæri að taka alvarlega. Þú gerðir það vissulega og barðist eins og naut en léttleikann og húmorinn hélst þú samt í eins og þér var einum lagið, alveg fram á seinustu stundu.
Pabbi, þú varst einstakur. Og auðvitað eru flestir foreldrar einstakir, en þú varst í sérflokki og ég er ekki í vafa um að margir séu til í að votta það. Léttleikinn, húmorinn, þörfin fyrir mannleg samskipti, að spjalla við allt og alla. Það skipti ekki máli hvort það var pósturinn eða einhver bæjarstjóri, þú vildir kynnast fólki, hvaðan það væri og hverra manna. Ekkert vandamál var heldur of stórt til þess að þú gætir ekki leyst það fyrir okkur börnin þín. Þú þekktir mann og annan, og þann þriðja, og trúðir alltaf á það góða í öllu fólki. Vegna þín er ég einhvern veginn þannig gerður að þora flestu, tek sénsa og hoppa á hlutina vitandi það auðvitað að ef allt færi í skrúfuna þá gætir þú lagað það nánast eins og hendi væri veifað. Nú þarf ég 41 árs gamall maðurinn loksins að fara að læra að haga mér.
Ég sit hér í húsinu sem þú byggðir fyrir 50 árum að skrifa um þig þessa minningargrein og hlusta á Creedence Clearwater Revival og Dire Straits á fullu blasti. Ég er að reyna að halda í léttleikann pabbi. Þeir eru að syngja um hversu margir heimar séu til, hversu margar sólir, en að við höfum bara eina hér í þessu lífi. Ert þú ekki bara farinn að dansa kringum þá næstu með mömmu?
Ég og pabbi vorum ekki bara feðgar og bestu vinir. Við vorum samstarfsfélagar og unnum hlið við hlið sem jafningjar í meira en 20 ár. Þar áður hafði mín helsta vinna sem ungmenni verið á lagernum hjá honum við vörutalningar og við skúringar og tiltekt. Pabbi var íþróttakennari. Hann var reyndar hættur kennslu þegar ég fæddist og rak þá eigið fyrirtæki, en hann leit alltaf á sig sem íþróttakennara og hafði ungmennafélagsandann ávallt í fyrirrúmi, leiðarljósið var að bæta samfélagið, ræktun lýðs og lands. Hann hafði engan áhuga á að selja ömmu sína.
Pabbi faðmaði mann þéttingsfast alla tíð. Hann var með jafnaðargeð og skeytti sjaldan skapi þó hann gæti verið ákveðinn. Ég var hinsvegar skapstórt barn. Með miklar tilfinningar, sonur móður minnar sem hann elskaði heitt. Stórt skap er enginn löstur ef maður getur haft stjórn á því vildi hann meina og hafði auðvitað rétt fyrir sér. Það var samt ekkert grín stundum að vekja mig snemma á morgnana til þess keyra mig í leikskólann.
Eitt sinn vakti ég hann þó, kominn í 6 ára bekk í grunnskóla og ekki enn farinn að labba einn í skólann. Ég tilkynnti honum að við hefðum báðir sofið yfir okkur og að við þyrftum að snara okkur af stað. Þetta var um miðjan vetur og nokkuð myndarlegur snjóbylur úti. Pabbi ræsti jeppann, stillti á fréttirnar og við héldum báðir að klukkan væri um 8:00. Það vildi ekki betur til en svo að þegar hann kom heim aftur stóð mamma í dyrunum með handleggi krosslagða og skipaði honum að ná í mig eins og skot, klukkan væri bara 6:00!
Pabbi hafði í mörg horn að líta þegar ég ólst upp, rekandi ungt og upprennandi fyrirtæki. En hann var alltaf til staðar þegar á þurfti að halda. Mamma og pabbi höfðu unun af því að ferðast bæði innanlands og til útlanda og eru þau ferðalög í æsku ógleymanleg. Margar borgarferðir til að mynda til Kaupmannahafnar og til London sem dæmi en flestar utanferðir á þessum árum voru þó til Mallorca þar sem mamma fór oftast með okkur ein á undan og dvaldist jafnan lungann úr sumrinu. Pabbi stóð í stafni í fyrirtækinu og var hvort sem er ekki jafnmikið fyrir það að liggja í sólbaði, en hann kom í viku, sjaldan tvær, og þurfti gjarnan á þeim tíma að taka á móti og senda fax-skeyti á skrifstofunni hjá hótelstjóranum. Hann sagði mér oft að ég væri búinn til á Mallorca og að það hefði ekki verið neitt óviljaverk. Því er auðtrúað því pabbi vissi yfirleitt hvað hann var að gera, setti sér markmið og keppnisskapið í honum sá svo um að ná vinningnum heim.
Við ferðuðumst víða og ég á sterka minningu þar sem ég er vakinn við landamæraeftirlit á landamærum Tékklands og Þýskalands í næturlest þar sem ég var sofandi efst í þriggja hæða koju. Ekki sást glögglega í mig og landamæraverðirnir þýsku með sínar stóru byssur hrópuðu að foreldrum mínum eftir að hafa hafa farið yfir farþegalistann og séð að fleiri ættu að vera í káetunni; Where ist der KINDER! Pabbi þurfti að klifra upp, vekja mig og biðja mig um að reka höfuðið fram í byssuskeftið og vasaljósið svo hægt væri að bera andlitið saman við myndina af mér í passanum. Ég sofnaði nú strax aftur en mér skilst að móðir mín hafi mátt hafa sig alla við að ráðast ekki að þeim þýsku. Pabbi hafði hinsvegar nokkuð gaman af þessu, alla vega eftir á og kallaði mig lengi vel kindina sína eftir þetta við litlar undirtektir reyndar frá mér.
Önnur ógleymanleg ferð er þegar foreldrar mínir tóku sig til og fóru óvænt með mig í páskaferð til Kanarí. Ekki vildi betur til en svo að við lentum á vitlausri eyju með ekkert hótelherbergi á háannatíma um páska. Þetta var engin pakkaferð og Tenerife er víst ekki það sama og Gran Kanarí! Á endanum var hægt að redda hótelherbergi en þernan sem kom til þess að búa um okkur var greinilega vel í glasi og bjóst alls ekki við því að þurfa að vinna svona fram eftir á heilögum degi. Morguninn eftir fór ég einn í gönguferð og endaði á nektarströnd þar sem ég sá eingöngu karlmenn á ellilífeyrisaldri. Ég man að mér þótti samt ekkert undarlegt að foreldrar mínir hefðu tekið mig með í þessa ævintýraferð. Þetta var allt bara skemmtilegt, og um kvöldið fór ég á skemmtilegan show-bar með þeim þar sem við horfðum á glæsilegar dragdrottningar koma fram.
Pabbi ferðaðist einnig mikið sjálfur án okkar fjölskyldunnar. Hann var oft í útlöndum í tengslum við vinnuna. Þetta voru aðrir tímar, ekkert internet og viðskiptasambönd byggðust á persónulegum samskiptum og vináttu sem þurfti að hafa meira fyrir en í dag. Pabbi og mamma buðu erlendum birgjum heim og þar var mamma reyndar oft í lykilhlutverki. Pabbi sótti svo vörusýningar stíft, oftast á haustin og missti því af afmælisdegi systur minnar. Það kom þó ekki að sök því hann kom alltaf klyfjaður heim, með ferðatöskur fullar af allskonar nammi, klæðnaði og leikföngum sem ekki fengust á Íslandi á þeim tíma. Ég á sterkar æskuminningar þar sem ég er á náttfötunum heima á septemberhaustkvöldi, við systkinin og mamma öll bíðandi spennt eftir því hvað pabbi drægi upp úr töskunum. Jólin komu þannig næstum tvisvar á ári í Ásholtinu.
Saman fóru mamma og pabbi líka í margar langferðir. Til Kína, Egyptalands, Brasilíu sem dæmi og undir það síðasta höfðu þau sérstaklega gaman af því að sigla um Karíbahafið. Pabbi grínaðist eitt sinn með það að hafa átt pening á Cayman-eyjum sem eru alræmd skattaskjól. En þann pening átti hann einfaldlega í vasanum á meðan hann labbaði sjálfur þar um, því skemmtiferðaskipið sem þau voru farþegar á var þar í stuttu stoppi.
Ég og pabbi fórum líka í talsvert margar ferðir tveir saman, oftast tengt vinnunni enda var ég þá farinn að reka fyrirtækið með honum. Við fórum til Grænlands og Færeyja, oft til Danmerkur og árlega til Þýskalands þar sem við sóttum vörusýningar. Pabbi sá einmitt um árabil um skipulagningu hópferða á Kölnarsýninguna svokölluðu sem er mikil íþrótta- og sundlaugasýning haldin í Köln. Þar í borg er pínulítil knæpa, jazzbar sem heitir Papa Joe og var farið nánast á hverju kvöldi eftir sýninguna á þann stað til þess að drekka bjór, hitta fólk í bransanum og hlusta á lifandi jazztónlist. Barinn er svo lítill að þegar maður mætir heldur maður að það sé ekki séns að komast inn, það geti ekki verið pláss fyrir fleiri! En pabbi var löngu búinn að fatta það að koma sér í gegnum þvöguna og áleiðis að salernunum innst inni. Þar átti hann horn við barinn, nánast alveg upp við sviðið með hljómsveitina spilandi. Þetta horn við barinn beið alltaf laust eftir honum og þar sé ég hann ljóslifandi fyrir mér í huganum, iðandi í skinninu yfir stemningunni og jazzinum, brosandi og dansandi, já og auðvitað spjallandi við alla!
Pabbi var mikill íþróttamaður, byrjaði að kenna sund við hlið afa á Laugum aðeins 11 ára gamall og sem útskrifaður íþróttakennari aðeins 19 ára. Kreppa, kreista, sleppa! voru bæði afi og pabbi frægir fyrir að segja í sundkennslunni. Margir af hans kærustu vinum eru gamlir nemendur hans og ansi nálægt honum í aldri. Pabbi gekk oft á höndum og meira að segja upp og niður tröppur. Heima var hann með veggfesta leikfimirimla og dýnu undir og lagði á það mikla áherslu að kenna okkur systkinunum að standa á höndum ásamt öðrum æfingum. Ég og bróðir minn vorum aldrei stórtækir í þessum málum, en systir okkar var framúrskarandi í öllu íþróttatengdu og var valin bæði íþróttamaður Aftureldingar og Mosfellsbæjar ásamt því að vera um tíma í ungliðalandsliðum í bæði handbolta og fótbolta. Pabbi var stoltur af dóttur sinni og var einn af forsvarsmönnum kvennaknattspyrnu Aftureldingar í Mosfellsbæ um árabil. Hann þurfi hinsvegar á endanum að beita kapítalískri aðferð við það að kenna mér sund, ég fékk 100 spænska peseta frá honum fyrir hverja ferð yfir laugina þarna á Mallorca, og það loksins skilaði ásættanlegum árangri.
Pabbi hafði mikið gaman af stangveiði. Alveg frá því að hann var smágutti að stelast til að veiða í Reykjadalsá fyrir norðan. Hann skipulagði marga veiðitúra með fjölskyldu og vinum og eru minningarnar margar og ómetanlegar. Hann kallaði mig litla sporð og gullseiði, bróður minn stóra sporð og þar fram eftir götunum. Öll fjölskyldan var kennd við einhver sporðaköst! Og þegar hann sjálfur fór til læknis vegna verkja í fótum þá talaði hann um sporðinn á sér við lækninn eins og ekkert væri eðlilegra. Með veiðinni kenndi hann mér þolinmæði og að vera iðinn. Maður gat ekki búist við árangri ef maður var ekki að reyna svo mikið var víst. Ég á óteljandi minningar af mér skríðandi við árbakka, að passa að fiskurinn yrði mín ekki var. Ég á líka minningu af mér þar sem pabbi stekkur til og kom þannig í veg fyrir að ég hrinti systur minni í ána því hún var að mokveiða á meðan ég fékk ekkert! Þarna bar skapið í mér kærleikann ofurliði, en pabbi reddaði málunum og hafði gaman af þessari sögu í mörg ár á eftir. Ég á líka góða sögu í seinni tíð. Þannig var að við vorum að veiða í steindauðri á og ég löngu búinn að gefast upp en hann ennþá að. Vildi þá svo til að myndarlegur lax beit á og ég hljóp til pabba með háfinn til þess að hjálpa til við löndun. Hann var ekki hrifinn af því og skipaði mér í burtu en ég lét ekki segjast. Stökk þá laxinn svona rosalega, losaði sig af önglinum og lenti fyrir tilviljun í háfnum hjá mér. Við náðum aldrei að sættast á það, hvor okkar hefði veitt fiskinn.
Pabbi, nú er John Fogerty í hátölurunum hjá mér að syngja Midnight Special og ég er að hugsa um að hella Gammel Dansk í staup og skála þér til heiðurs. Gammel var þinn drykkur, og hefur þann kost að yfirleitt drekkur fólk ekki of mikið af honum. Þú varst farinn að hvetja vini og vandamenn til þess að stoppa á Loksins-barnum í Leifsstöð og fá sér Gammel á leiðinni til útlanda og senda þér mynd í leiðinni. Svo varst þú nú sjálfur fyrir ekki svo löngu á ferð í flugstöðinni, þá líka í miðri krabbameinsmeðferð og gast því ekki leyft þér að skála sjálfur, en keyptir í staðinn staup handa bláókunnugum manni og fékkst hann til þess drekka þína skál. Hélst þannig í hefðina eins og þér var einum lagið. Þetta var nú reyndar ekki í fyrsta sinn sem þú settist hjá ókunnugum. Það var árlegur viðburður í jólagjafainnkaupaferð sem við fórum fyrir hver jól. Alltaf vildir þú setjast við ákveðið borð á barnum, og skipti engu máli hverjir sátu þar fyrir, þú blandaðir bara geði við fólkið og allir voru á endanum hæstánægðir.
Elsku pabbi. Það er skrýtið að hafa þig ekki lengur hérna hjá okkur. Bæði heima og í vinnunni. Þú varst ekki á þeim buxunum að hætta að vinna og stóðst vaktina alveg undir það síðasta. Það skipti ekki máli hvað gekk á í rekstrinum, þú varst alltaf með stáltaugar og jafnaðargeðið. Sagðir við mig oftar en einu sinni ef einhver óheillaþróun væri að eiga sér stað að það þýddi ekkert að hafa áhyggjur af hlutunum fyrirfram. Alltaf trúðir þú á bestu útkomuna, og oftast var hún líka niðurstaðan. Enda vönduðum við alltaf til verka. Ég ætla ekki að telja hér upp þau ótal verkefni sem þú og við saman komum að og framkvæmdum. Foreldrar vilja og eiga helst að vera stolt af afkvæmum sínum, og ég efast ekki um að þú hafir nú verið nokkuð sáttur með mig, en alla tíð hef ég verið svo stoltur af þér pabbi minn. Að hafa átt þig sem föður voru forréttindi og ég er ólýsanlega hamingjusamur og þakklátur fyrir það. Elsku pabbi minn, takk fyrir lífsgjöfina, leiðsögnina, kærleikann og ástúðina. Og takk fyrir léttleikann og húmorinn þinn mikla. Þú varst engum líkur, algjör gullfiskur og ég sakna þín svo mikið.
Þinn litli sporður,

Heiðar.

Fyrstu kynni mín af Ágústi voru þegar hann gekk hress í bragði inn í fyrstu kennslustundina í dýrafræði hjá 1. bekk í Gagnfræðaskólanum að Brúarlandi í Mosfellssveit, seint á 7. áratug síðustu aldar og kynnti og sig fyrir bekknum Ágúst Óskarsson heiti ég og á að kenna ykkur kvikindafræði í vetur. Síðar átti þessi jákvæði, kappsami, trausti, stríðni og litríki karakter, eftir að verða minn besti vinur, jafnt í blíðu sem stríðu. Það var síðan árið 1982 sem leiðir okkar Ágústs lágu aftur saman og fyrirtæki okkar hófu farsælt samstarf, sem báðir höfðu gagn og gaman af, um langt árabil. En það var ekki bara samstarf í viðskiptunum sem sameinaði okkur Ágúst, heldur tengdust fjölskyldur okkar líka vinaböndum og fórum við meðal annars saman í margar ánægjulegar ferðir, jafnt innanlands sem utan. Ég minnist veiðiferða, ferða að Laugum, til Aðalvíkur, Þýskalands, Tyrklands, Brasilíu og Sviss, auk ferða á vegum Landakaupavinafélagsins. Margar ferðir fórum við Ágúst tveir saman eða með fleiri góðum mönnum á hinar ýmsu vörusýningar og viðburði bæði innanlands og erlendis. Jafnan var það Ágúst sem undirbjó, skipulagði ferðirnar og leiddi hópinn. Sérstaklega eru mér minnisstæðar ferðir sem við tveir fórum í til Prag, Berlínar og Búdapest, í framhaldi af vörusýningum, í kringum 1989 þegar Járntjaldið var nýfallið. Á þessum tíma voru þessar borgir óbreyttar, eins og þær höfðu verið fyrir fall Járntjaldsins, þar með talið verðlagið og kunnum við félagarnir það vel að meta. Nú þegar ég sit og hripa niður þessi minningabrot, þá hef ég við hendina kristalsglas, sem ég keypti í ferðinni til Prag, sælla minninga. Meðal fjölmargra minninga er tengjast Ágústi og nú koma upp í hugann, er atvik frá glæsilegum Nýárskvöldverði á Grillinu, Hótel Sögu, í upphafi 21. aldarinnar. Þegar leið á kvöldið þurftum við félagarnir að skreppa á snyrtinguna, eins og gengur og gerist og þegar við komum þangað var þar þegar biðröð uppáklæddra karla. Allt í einu víkur Ágúst sér að stórum og stæðilegum manni sem var á undan okkur í biðröðinni og segir: Mikið ertu með flott bindi, það hlýtur að vera gott að snýta sér í það. Um leið grípur Ágúst í bindið á manninum og gerir sig líklegan til að snýta sér í bindið. Það næsta sem gerðist var að eigandi bindisins trylltist og gerði sig líklegan til að ganga í skrokk á Ágústi. Greip ég þá til þess ráðs að ganga þarna á milli manna og náði að róa hinn tryllta eiganda bindisins. Þarna held ég að ég hafi komist næst því á minni ævi, að bjarga mannslífi. Miklu hefði ég viljað fórna til, ef hægt hefði verið á sambærilegan hátt að stoppa helvítis krabbann sem nú hefur lagt að velli minn kæra vin. Ég vil nota tækifærið og þakka Heiðari syni Ágústs fyrir að fylgja pabba sínum í kveðjuferðina til mín í vor til Kaupmannahafnar. Ágúst stoppaði hjá mér í fimm góða daga og nýttum við félagarnir þá daga vel til að rifja upp gamla tíma, heimsækja valdar krár og njóta samverunnar. Það að Ágúst skyldi leggja þetta ferðalag á sig, mikið veikur, sýnir vel að ávallt var hann tilbúinn til að leggja mikið á sig til að rækta vináttuna. Nú er Ágúst kominn í Sumarlandið til hennar Helgu sinnar, sem hann hefur saknað svo sárt síðustu tvö árin. Í Sumarlandinu mun Ágúst eflaust taka upp þráðinn með sinni gamansemi og léttri stríðni, ásamt því að sýna Helgu sinni endalausa ást og umhyggju. Heiðar Reyr , Silja Rán og Óskar Örn, börn Ágústs og Helgu, hafa nú á stuttum tíma misst báða foreldra sína, langt um aldur fram. Ég vil senda þeim mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Kristján Einarsson.