Hjónin Ingibjörg Björgvinsdóttir og Ingólfur Jónsson ung að árum.
Hjónin Ingibjörg Björgvinsdóttir og Ingólfur Jónsson ung að árum.

Ingibjörg Björgvinsdóttir fæddist á Bólstað í Austur-Landeyjum þar sem náttúran í allri sinni dýrð og víðsýnið greyptist í barnssálina. Hún ólst þar upp í hópi 10 systkina.

„Stundum kallaði pabbi í okkur krakkana sem vorum nógu mörg til að mynda lítinn kór og lét okkur syngja þegar komu gestir. Pabbi sem var organisti hafði gaman af þessu en það kom í hlut mömmu að sjá um kaffi og veitingar handa gestunum. Mamma sem var lærð saumakona sá jafnan til þess að við vorum vel til fara og því minnist ég þess að eitt sinn þegar við sungum fyrir gesti mátti sjá að ég hafði stokkið inn beint úr útileiknum og hefði þá heldur viljað vera tandurhrein við sönginn.“ Ærsl og frelsi barnanna naut skilnings en agi til vinnu og ábyrgð lærðist strax á barnsaldri. Nú eru systurnar Ingibjörg og Margrét Auður, sem nýlega varð áttræð, þær einu í systkinahópnum sem eftir lifa.

...