Boðið verður upp á svokallað Leikhúskaffi á Borgarbókasafninu Kringlunni í dag, þriðjudaginn 1. október, kl. 17.30-18.30. Þar segir Hilmir Snær Guðnason leikstjóri frá gamanleikritinu Óskaland, sem frumsýnt verður á Stóra sviði Borgarleikhússins þann 11. október. Í kjölfarið verður farið samferða yfir á Stóra svið Borgarleikhússins, þar sem leikmyndin verður skoðuð og boðið upp á umræður og spurningar fyrir áhugasama. Óskaland er sagt vera fyndið og heiðarlegt verk um fjölskylduflækjur og kynslóðabil.