Kjarasamningur náðist í fyrrinótt milli Eflingar og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV). Nær samningurinn til á þriðja þúsund Eflingarfélaga á hjúkrunarheimilum og sambærilegum stofnunum á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði. Samningurinn gildir frá 1. apríl 2024 til 31. mars 2028.

Meginkrafa Eflingar í viðræðum við SFV var að tekið yrði á mönnunarvanda hjúkrunarheimila. Á vef Eflingar er því fagnað að samningnum fylgir samkomulag við stjórnvöld sem tekur á mönnunarvandanum.

Eiga fjármagnaðar og tímasettar lausnir af hálfu stjórnvalda að liggja fyrir eigi síðar en 1. apríl 2025. Takist það ekki er Eflingu heimilt að segja upp samningnum með eins mánaðar fyrirvara þann 1. maí 2025.

Atkvæðagreiðslu um samninginn á að ljúka 16. október næstkomandi.