Geoff Tate meðan hann var enn í Queensrÿche.
Geoff Tate meðan hann var enn í Queensrÿche. — Ljósmynd/Alexandre Cardoso

Hafi menn ekki enn upplifað að sjá Operation: Mindcrime, hina goðsagnakenndu plötu, ellegar rokkóperu, bandaríska málmbandsins Queensrÿche, flutta í heild sinni á tónleikum gefst eitt tækifæri enn. Geoff Tate, fyrrverandi söngvari Queensrÿche, sem á einkaréttinn á því að flytja plötuna í heild, upplýsti í vikunni að hann myndi gera það í hinsta sinn á næsta ári í Bandaríkjunum; túrinn byrjar í mars og lýkur í október. Almenn miðasala hófst á föstudaginn og mögulega eru því öll sund lokuð þegar þessi frétt kemur ykkur fyrir sjónir.

Tate, sem orðinn er 65 ára, var sem frægt er rekinn úr Queensrÿche fyrir 12 árum og eftir málaferli sem stóðu í tvö ár héldu þeir sem eftir stóðu nafni bandsins en Tate fékk einkarétt á því að flytja Operation: Mindcrime í heild á tónleikum. Ekki er talið líklegt að hann sameinist sínum gömlu félögum á ný.