Landsliðskona Katla María Magnúsdóttir átti flottan leik fyrir Selfoss og skoraði sex mörk í fyrsta sigri liðsins á leiktíðinni á Selfossi í gærkvöldi.
Landsliðskona Katla María Magnúsdóttir átti flottan leik fyrir Selfoss og skoraði sex mörk í fyrsta sigri liðsins á leiktíðinni á Selfossi í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Óttar

Selfoss vann sinn fyrsta sigur á leiktíðinni í úrvalsdeild kvenna í handbolta er liðið vann ÍR, 25:22, á heimavelli í gærkvöldi. Selfoss fór upp úr botnsætinu og upp í tvö stig. ÍR er nú á botninum með aðeins eitt stig.

Selfyssingar byrjuðu betur og komust í 8:3 snemma leiks. Skiptust liðin á að skora eftir það í fyrri hálfleik og voru hálfleikstölur 12:8, Selfossi í vil.

Gestirnir minnkuðu muninn í tvö mörk þegar skammt var eftir, 23:21, en Selfoss hélt út.

Landsliðskonurnar Perla Ruth Albertsdóttir og Katla María Magnúsdóttir skoruðu sex mörk hvor fyrir Selfoss. Karen Tinna Demian var markahæst hjá ÍR með fimm mörk.