Svæðið vantar svo mikla afþreyingu og þarna sáum við fullt af tækifærum og möguleikum fyrir það sem myndi bæði trekkja að túrista og halda þeim hérna á svæðinu.
— Morgunblaðið/Brynjólfur Löve

Í miðjum kórónuveirufaraldrinum flutti Finnur Aðalbjörnsson, jarðvinnuverktaki á Akureyri, nokkrar vinnuvélar á jörð sem hann hafði nýverið keypt austan megin í Eyjafirði. Steinsnar frá veginum sem tengir Akureyri við rætur Vaðlaheiðarinnar. Tilefnið var ærið. Hann hafði í samráði við konu sína og nokkra fjárfesta ákveðið að koma upp nýju baðlóni sem hlaut nafnið Skógarböð. Réttnefni er það, enda svæðið skógi vaxið og skjólgott, en útsýni nær yfir höfuðstað Norðurlands og út fjörðinn þar sem Atlantshafið teygir úr sér og virðist takmarkalaust að stærð.

Morgunblaðið tók hús á Finni og konu hans, Sigríði Maríu Hammer, sem alltaf er nefnd Sía. Þau eru með alla þræði í hendi sér þegar kemur að rekstri Skógarbaðanna sem hafa frá fyrsta degi laðað til sín gríðarlegan fjölda ferðamanna. Þau gerðu raunar ráð fyrir því fyrsta árið að fá um 50 þúsund gesti á svæðið en þeir reyndust

...