— Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Gulur, rauður og brúnn eru áberandi tónar í náttúrunni nú þegar gróður fölnar eftir sumarið. Skógurinn í þjóðgarðinum í Ásbyrgi í Kelduhverfi skartar nú sínu fegursta og litaspjald landsins í þessum stórbrotna hamrasal er engu líkt. Á sumum stöðum þarna eru klettaveggirnir nærri 100 metra háir. Eyjan sem svo er kölluð og sést hér fyrir miðri mynd er fallegt náttúruvætti en sagan segir að Sleipnir, hinn áttfætti hestur Óðins, hafi stigið þar niður fæti þegar goðið var á yfirreið.

En náttúran er síkvik og þeirrar dýrðar sem sést á þessari mynd mun ekki njóta lengi við. Allt fram streymir endalaust, eins og Kristján fjallaskáld orti. Nú hellist haustið yfir og veðurspár gera ráð fyrir norðanátt með kulda og éljum fram á komandi helgi. Þetta gildir um landið norðan- og vestanvert og þar ætti fólk að búa sig undir að vetur gangi í garð.sbs@mbl.is