— AFP/Olga Maltseva

Rússneski sjóliðaskólinn í Pétursborg, sem kenndur er við Dmitrí Seníavin aðmírál, stóð fyrir fjölmennri útskrift og tóku þessir ungu menn þar þátt. Útskriftarefnin stóðu heiðursvörð við skólabygginguna og heilsuðu háttsettum yfirmönnum sjóhersins, sem sumir fluttu ávörp í tilefni dagsins. Athöfnin var hin glæsilegasta, gengu fylkingar í taktföstum gæsagangi og minnti athöfnin þá helst á hersýningar á Rauða torginu í Moskvu.

Frá upphafi Úkraínustríðsins hefur Svartahafsfloti átt í miklum vandræðum með að athafna sig. Langdrægar skipaflaugar sem skotið er frá ströndum Úkraínu og linnulausar drónaárásir í lofti og á sjó hafa valdið flotanum gríðarlegu tækjatjóni. Hafa Rússar misst bæði flaggskip flotans og nýlegan kafbát auk fleiri skipa.