Sigur Amanda Andradóttir lék vel með Twente þegar liðið lagði Celtic að velli, 2:0, í Glasgow í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í gær.
Sigur Amanda Andradóttir lék vel með Twente þegar liðið lagði Celtic að velli, 2:0, í Glasgow í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í gær. — Ljósmynd/@FCTwenteVrouwen

Sveindís Jane Jónsdóttir landsliðskona í knattspyrnu og liðsfélagar hennar í Wolfsburg máttu þola tap gegn Roma, 1:0, í fyrstu umferð A-riðils Meistaradeildar Evrópu í Rómarborg í gærkvöldi.

Sveindís Jane var í byrjunarliði Wolfsburg en var tekin af velli í hálfleik. Lyon og Galatasaray eru einnig í A-riðli og mættust í Frakklandi í gærkvöldi. Fór svo að Lyon vann þægilegan sigur, 3:0.

Betur fór hjá annarri landsliðskonu, Amöndu Andradóttur, og liðsfélögum hennar í Twente. Hollensku meistararnir heimsóttu Skotlandsmeistara Celtic til Glasgow og unnu góðan sigur, 2:0, í B-riðli.

Amanda var í byrjunarliði Twente og fór af velli á 86. mínútu. Kayleigh van Dooren skoraði bæði mörk Twente.

Í hinum leik riðilsins mættust Chelsea og Real Madríd í Lundúnum þar sem heimakonur unnu 3:2.