Friðný G. Ármann fæddist 12. desember 1928. Hún lést 2. september 2024.

Friðný var jarðsungin 17. september 2024.

Elsku Fía frænka lést aðfaranótt 2. september sl., tæplega 96 ára að aldri, eftir skammvinn veikindi sem komu bæði henni og okkur mikið að óvörum. Fram að þeim tíma var Fía svo hress og kát og héldum við alltaf að hún yrði allavega 100 ára.

Fía var ekki bara frænka okkar, heldur var hún okkur sem önnur amma. Það voru ófáar stundirnar sem við systur áttum hjá henni uppi á Akranesi og við eigum svo margar góðar minningar frá heimsóknum okkar til elsku Fíu og Badda á Bjarkargrundinni. Þegar við vorum litlar var það alltaf ferðalag að fara upp á Skaga, annaðhvort með Akraborginni eða í löngum bíltúr, og okkur þótti það svo spennandi. Ef Fía var með í för var að sjálfsögðu sungið alla leiðina þar sem Fíu fannst fátt skemmtilegra en að syngja. Þegar til Fíu var komið biðu okkar alltaf veitingar eins og henni einni var lagið og þar gátum við systur fengið að dansa um, hoppa og skoppa, og að gera æfingar fram af tröppunum í stofunni hjá henni var aðalsportið. Henni fannst það aldrei neitt mál að hafa okkur út um allt í æfingum heldur var það þveröfugt; hún var stolt af því hvað hennar konur voru flinkar í fimleikum og var dugleg að deila því með öllum sem vildu heyra það.

Eitt sinn gistum við hjá henni í desember og vorum með miklar áhyggjur af því hvort jólasveinninn myndi rata til hennar svo við myndum nú örugglega fá í skóinn en að sjálfsögðu kom hann þangað og gaf okkur extra mikið í það skiptið; fullan poka af nammi og fleira góðgæti. Það var alltaf svo notalegt að fara til Fíu frænku og þegar við urðum eldri fórum við sjálfar að taka Akraborgina eða rútu til hennar og fengum stundum að gista. Eitt sinn þegar við vorum orðnar unglingar komum við til að læra hjá henni og gista og hún var svo spennt að hún var stanslaust að koma inn til að spjalla eða að færa okkur mat. Henni fannst svo gaman að hafa okkur hjá sér og okkur þótt jafn gaman og gott að vera hjá henni.

Fía var mikil handverkskona og allt sem hún prjónaði eða heklaði var sem listaverk. Hún sat þolinmóð með okkur systrum og kenndi okkur að hekla dúka og fleira og hafði mikla trú á okkur þó svo að hæfileikar okkar hafi kannski legið annars staðar. Fía var dugleg að prjóna á okkur systur og þegar við eignuðumst börn þá var hún stanslaust að prjóna sokka og vettlinga handa þeim. Þetta voru allt svo mikil listaverk að það var varla að maður þyrði að nota neitt af þessu. Hún prjónaði fram á síðustu stundu og aðeins nokkrum vikum áður en hún lést var hún að byrja að prjóna sokka á yngstu börnin okkar.

Fía var alveg ótrúleg kona bæði svo glæsileg og klár og allt sem hún gerði, gerði hún af mikilli natni og fullkomnun. Meira að segja kökurnar hennar sem hún bakaði voru allar upp á 10. Hún var komin yfir áttrætt þegar við systur giftum okkur og eignuðumst okkar börn en hún tók ekki annað í mál en að baka bæði fyrir brúðkaupin okkar og skírnaveislur krakkanna. Og það engar smá tertur. Það komu aldrei gestir til Fíu nema að fara útblásnir út aftur af of miklu áti. Fía vildi alltaf bjóða upp á veitingar og það var yfirleitt hlaðborð af kræsingum þegar maður mætti í heimsókn. Þar í uppáhaldi voru að sjálfsögðu danska perutertan og smjörkakan, og auðvitað bauð Fía okkur að koma til sín til að læra að baka þessar fallegu og gómsætu kökur, sem við munum gera okkar besta til að halda áfram að baka, þó að þær verði aldrei jafn fallegar eða jafn góðar og hjá henni.

Fía átti ekki börn eða barnabörn, svo við systurnar vorum svo heppnar að fá að vera eins og barnabörnin hennar og það verðum við ævinlega þakklátar fyrir. Fía var guðmóðir okkar og tók því hlutverki mjög alvarlega. Fía var einstaklega barngóð og fannst henni svo gaman þegar við systur eignuðumst börn og fórum að mæta með þau í heimsókn til hennar. Henni fannst þau auðvitað stilltustu og flottustu börnin og það var sko ekki til í orðabókinni hjá henni að einhver væri með frekju; hann/hún var bara þreytt/þreyttur. Það eru ófá fótboltamótin sem við fórum á á Akranesi og þá var að sjálfsögðu stór hluti af helginni að fara til Fíu frænku. Þrátt fyrir háan aldur var Fía frænka með á nótunum og skellti pizzum í ofninn fyrir ungviðið ásamt því að bjóða upp á úrval af bakkelsi á eftir. Það var svo ómetanlegt að komast inn í hlýjuna og notalegheitin hjá Fíu frænku á þessum fótboltamótum þar sem veðrið lék sjaldnast við okkur eða aðra fótboltagesti.

Þín er sárt saknað elsku Fía okkar. Við erum svo þakklátar fyrir að hafa átt yndislegar stundir með þér síðustu dagana áður en þú kvaddir þennan heim. Og allar aðrar stundir sem við höfum átt með þér um ævina.

Þínar guðdætur,

Angelien & Saskia.

Angelien Schalk & Saskia Freyja Schalk