Sjónvarpsmaðurinn góðkunni Jón Ársæll Þórðarson átti að heita Bjólfur, allt þar til á síðustu stundu að móðursystir hans fékk vitrun á sjálfan skírnardaginn. Vitrun hennar leiddi til þess að hann fékk nafnið Jón í höfuðið á frænda sínum.

Jón Ársæll er gestur Dagmála og ræðir þar bók sem hann hefur skrifað og hefur að geyma sögur úr æsku hans, sögur sem komu til hans við grúsk í æskuminningum. Bókin ber einmitt heitið Ég átti að heita Bjólfur. Í þættinum ræðir Jón líka glímu sína við Elli kerlingu sem hann hefur átt erfitt með. Til að létta sér þann slag hefur hann leitað aðstoðar hjá nafntoguðum geðlækni. Hann er sjálfur menntaður í sálarfræði og hefur reynt eitt og annað og ýmislegt af því sem vart getur flokkast sem þessa heims.