Lögreglan þarf að takast á við vaxandi glæpi og ógn við öryggi ríkisins

Fjöldi umsagna hefur borist fjárlaganefnd vegna fjárlagafrumvarps fyrir árið 2025. Þar má sjá að margir vilja meira fé frá ríkinu, sem er hefðbundið við afgreiðslu fjárlaga og nokkuð sem fjárlaganefnd ætti almennt að taka með miklum fyrirvara. Útgjöld ríkisins eru þegar of mikil enda hefur það færst of mikið í fang og á ýmsum sviðum er fremur ástæða til að draga saman en að bæta í.

Tiltekin sérsvið eru þó þess eðlis að þar er óhjákvæmilegt að ríkið leggi meira af mörkum og er þá einkum horft til þess grunnhlutverks ríkisins að halda uppi lögum og reglu og vernda borgarana. Embætti ríkislögreglustjóra hefur um árabil varað við versnandi ástandi í ákveðnum málaflokkum og að lögreglan þurfi aukin úrræði til að takast á við skipulagða glæpastarfsemi, svo dæmi sé tekið. Annað sem lögreglan hefur fengið í fangið af hratt vaxandi þunga á síðustu árum eru útlendingamál.

...