Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Álftirnar kvaka, segir í ljóðinu, en fyrir mér er þetta fremur hávaði en hljóð,“ segir Björgvin Þór Harðarson kornbóndi. Eins og sagði frá hér í Morgunblaðinu á dögunum er hann með ræktun á víðfeðmum ökrum við Gunnarsholt á Rangárvöllum. Undir eru alls 240 hektarar en bóndinn áætlar að álftir skaði og jafnvel eyðileggi uppskeruna á um 30 hekturum.

Fullt starf að fæla og flauta

Álftin hefur verið áberandi á þessu svæði að undanförnu – og þótt oddaflug fuglanna sé tignarlegt er ekki allt sem sýnist. „Fuglinn lendir við akrana og fer síðan í kornið; étur korn af stönglunum og bælir niður grösin. Slíkt veldur því að erfitt er að vinna akrana upp að vori, nema þá helst að brenna hálminn eins og sinu,“ segir Björgvin Þór.

...