Ingibjörg Runólfsdóttir fæddist 24. mars 1933. Foreldrar hennar voru hjónin Jónína Vilborg Jónsdóttir, f. 1. apríl 1906, d. 5. febrúar 1990, og Runólfur Jónsson, f. 4. nóvember 1902, d. 1. febrúar 1992.  Börn Jónínu Vilborgar og Runólfs voru níu:  Kristbjörg, f. 2. júní 1927, d. 14. september 2001, Jón, f. 2. júní 1928, d. 8. febrúar 1946,  Björgvin, f. 13. júní 1929, d. 19. september 2021, drengur, f. 16. mars 1931, d. 16. mars 1931, Kjartan, f. 31. mars 1932, d. 21. september 2022, Sigurður, f. 9. júní 1935, d. 22. apríl 2016, Árný Aðalborg, f. 22. mars 1940, d. 16. júní 1944, og Árný Aðalborg, f. 30. maí 1943.
Þann 22. október 1954 giftist Ingibjörg Jóni Ólafssyni, f. 9. júlí 1921, d. 26. maí 1992. Fyrir  hjónaband átti Jón dótturina Dagrúnu, f. 7. febrúar 1945, d. 21. ágúst 1992.

Börn Ingibjargar og Jóns eru: 1) Vilberg Rúnar, f. 16. október 1955, giftist Kristínu Sigvaldadóttur, f. 30. október 1955. Þau skildu. Synir þeirra eru: a) Ari Fannar, giftur Svölu Einarsdóttur og eiga þau þrjú börn og þrjú barnabörn. b) Víðir Starri, giftur Sæbjörgu Guðjónsdóttur og eiga þau tvö börn. 2)  Vaka, f. 24. nóvember 1956, gift Stefáni Jóhanni Árnasyni, f. 23. ágúst 1956. Dætur þeirra eru: a) Ingibjörg Ösp, gift Magnúsi Geir Þórðarsyni og eiga þau fimm börn og þrjú barnabörn.  b) Gunnur Ýr, gift Sindra Birni Hreiðarssyni og eiga þau þrjú börn. 3) Nanna Árný, f. 8. febrúar 1962, gift Magna Ingibergi Cæsarssyni, f. 23. janúar 1956.  Börn þeirra eru a) Hulda og á hún eitt barn. b) Sindri Cæsar, giftur Lilju Birnu Stefánsdóttur og eiga þau fimm börn, c) Jóna Maren, sambýlismaður hennar er Kjartan Þór Yngvason og eiga þau tvo drengi.  d) Hildur Inga, gift Ásgeiri Ólafssyni Lie og eiga þau þrjú börn. 4)  Heiðdís, f. 3. maí 1964, á soninn Jón Ólaf með Herði Ingólfssyni, f. 6. júlí 1958.
Ingibjörg ólst upp í Litla-Sandfelli í Skriðdal. Skólaganga hennar var eins og tíðkaðist á þeim tíma. Haustið 1952 hóf hún nám í Húsmæðraskólanum á Laugalandi þar sem hún kynntist Jóni Ólafssyni, verðandi eiginmanni sínum.

Ingibjörg og Jón hófu hjúskap sinn á Ytra-Laugalandi í Öngulsstaðahreppi en byggðu nokkrum árum síðar nýbýlið Vökuland. Nokkrum árum eftir andlát Jóns flutti Ingibjörg í Víðilund 14 á Akureyri þar sem hún bjó þar til hún flutti á Hjúkrunarheimilið Hlíð.
Þegar börnin voru vaxin úr grasi fór hún að vinna utan heimilisins, lengst af sem matráður á hinum ýmsu stöðum.
Útför Ingibjargar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 11. október 2024, klukkan 13.


Þannig týnist tíminn þó hann birtist við og við segir í lagi sem okkur ömmu þótti vænt um. Amma velti gjarnan fyrir sér söngtextum og ljóðum og kunni líka mikið af gömlum kvæðum sem hún vitnaði gjarnan í.


Undanfarið hefur setning vinar okkar vandaðu þig að lifa, það er flókið að missa verið ofarlega í huga fjölskyldunnar. Hún er svo sönn og lýsir vel þeim tilfinningum sem við höfum fundið fyrir síðustu daga og ekki síst í dag þegar við fylgjum ömmu síðasta spölinn. Það er flókið að missa. Vegna þess að á sama tíma og við erum þakklát fyrir að amma hafi fengið rúmlega 90 ár við góða heilsu og hún hafi sjálf verið ferðbúin þá finnum við fyrir sorg og söknuði. Amma hefur alla tíð verið til staðar, verið þessi fasti punktur þar sem alltaf mátti finna kærleika og hlýju.

Amma Inga og afi Jón eru stór hluti af æskuárunum og minningarnar frá Vökulandi eru fjölmargar. Alltaf höfðu þau tíma þegar aðrir voru uppteknir og það var alltaf kátt á hjalla þegar við krakkarnir á stekknum fengum að gista á Vökulandi. Þá tefldum við skák eða spiluðum stokk við afa og bökuðum og lásum með ömmu eða nutum þess að fá fótanudd og dekur fyrir svefninn. Við bardúsuðum í skúrnum og fórum í póstferðir með afa þar sem hápunktur ferðarinnar var nestispásan, alltaf tekin á sama stað. Afi dró þá fram skrínuna góðu sem geymdi þrjú box, brúsa og flösku með alveg einstaklega gómsætu nesti sem amma hafði tekið til af sinni alkunnu snilld. Svo var líka alveg sérstaklega notalegt að koma inn á Vökuland eftir snjóþotuleikinn úti. Þá fengum við oftar en ekki heitt kakó og ostabrauð hjá ömmu sem einnig útbjó heitt fótabað fyrir kaldar tær og hlýjaði hendur á meðan við spjölluðum um daginn og veginn. Amma hlýjaði reyndar hendur okkar áfram eftir að við urðum fullorðin og allt fram til síðasta dags.

Að alast upp í kringum ömmu og afa voru mikil forréttindi og það var ekki síður dýrmætt að eiga svona góða vinkonu í ömmu sinni á fullorðinsárum. Það var alltaf gott að koma í heimsókn til ömmu sem, allt þar til hún varð rúmlega 90 ára gömul, bjó á 3. hæð í lyftulausri blokk. Hún leit á stigana sem heilsurækt og þegar við fjölskyldan komum í heimsókn þá tók það svipaðan tíma fyrir okkur að kasta mæðinni eftir stigagönguna og fyrir ömmu að töfra fram kaffihlaðborð eða matarveislu sem hefði verið hvaða veisluþjónustu sem er til sóma.

Amma var mjög fær í höndunum, var iðin við ýmiskonar handavinnu og alveg einstaklega vandvirk. Eftir hana liggja óteljandi meistaraverk, þar á meðal lopapeysur, sokkar og vettlingar sem munu ylja okkur fjölskyldunni um ókomin ár. En amma var ekki aðeins afburða prjónakona heldur gat hún allt, hvort sem það var að bólstra húsgögn, sauma púða og dúka, renna og skera út í við, mála keramik eða sauma út myndir. Reglulega spurði amma mig hvort ég héldi að það væri nú ekki gott fyrir mig að fara að prjóna eitthvað, því það væri svo góð leið til að slaka á. Við komum okkur saman um að það yrði einhvern daginn og þá myndi hún fylgjast stolt með.

Amma var jákvæð og bjartsýn kona og var með fallegt bros sem náði til augnanna. Hún var umhyggjusöm, full af hlýju og mjög dugleg að faðma okkur öll og tjá væntumþykju sína. Amma talaði oft um hve heppin hún væri með fólkið í kringum sig og stoltið leyndi sér ekki þegar hún talaði um afkomendur sína. Hún fylgdist með þeim öllum og hafði mikinn áhuga á að vita hvað þeir væru að fást við, hvort sem það var í vinnu, námi eða áhugamálum. Það eru örfáir dagar síðan við sátum og spjölluðum, sem svo oft áður, um afkomendurna. Hún sagðist hafa verið að telja fjöldann saman í huganum og þegar hún spurði mig hvort ekki væri rétt talið, tók það mig dágóðan tíma að staðfesta töluna sem auðvitað var alveg hárrétt. Amma hafði gaman af því að hlusta á tónlist af ýmsu tagi og ekki leyndi stoltið sér þegar hún hlustaði á afkomendakórinn syngja, eins og hann gerði við ýmis tækifæri. Hún hefur alla tíð verið aðdáandi númer eitt og í dag syngjum við fyrir ömmu í síðasta sinni.

Þú ert alltaf sami engillinn elsku Gunnur mín sagði amma gjarnan þegar við kvöddumst. Nú ómar í huga mér lagið Amma engill sem Borgardætur fluttu og ég sé ömmu ljóslifandi fyrir mér með kökugerðarsvuntuna um mittið á sér, bakandi 18 sortir fyrir jólin. Jólin eru jú tími hefðanna og það eru ófá atriðin, eins og til dæmis heimalöguð karamellusósa, ostastangir, lagtertur og anískökur, sem við fjölskyldan munum alltaf tengja við ömmu. Amma engill mun vaka yfir okkur um jólin eins og alla hina dagana.

Við Sindri, Fannar Smári, Laufey, Aldís Vaka og Sara Dögg biðjum ömmu blessunar á nýjum stað með þökk fyrir alla vináttuna, kærleikann og hjartahlýjuna.

Ljós og friður fylgi þér elsku amma.

Gunnur Ýr.