Mig langaði til að athuga hvað myndi gerast ef frelsarinn sjálfur fæddist í beitarhúsi og flækingar, ranglandi á milli bæja, kæmu að og færðu honum eitthvað fallegt, eins og íslensk veðrabrigði.
„Ég er trúuð og hef alltaf haft áhuga á trúarbrögðum,“ segir Gerður Kristný, sem yrkir um Krist í nýrri ljóðabók.
„Ég er trúuð og hef alltaf haft áhuga á trúarbrögðum,“ segir Gerður Kristný, sem yrkir um Krist í nýrri ljóðabók. — Morgunblaðið/Eyþór

Jarðljós er ný ljóðabók frá Gerði Kristnýju, einu fremsta núlifandi skáldi okkar. Ljóðabókin skiptist í nokkra kafla og Gerður Kristný yrkir meðal annars um börn, konur, stríð og Reykjavík og í ljóðabálki fæðist sjálfur Kristur í íslenskri sveit.

Fyrsta ljóð bókinnar nefnist Embla og er ort í minningu Emblu Arnars Katrínardóttur sem fyrirfór sér árið 2021, 14 ára gömul.

„Embla bjó með fjölskyldu sinni í sama hverfi og ég, Stóra-Skerjafirði. Eldri systir hennar var í bekk með eldri syni mínum. Þær systur komu stundum til okkar í hrekkjavökugleðskap með öðrum krökkum úr hverfinu. Í Stóra-Skerjafirði verða öll börnin okkar börn því hverfið er svo lítið og flest eru börnin á leikskólanum Skerjagarði. Andlát Emblu tók auðvitað á alla og ég vildi minnast hennar í ljóði,“ segir Gerður Kristný.

...