Hátíð Gjörningur Ástu Fanneyjar Sigurðardóttir í Aþenu árið 2021.
Hátíð Gjörningur Ástu Fanneyjar Sigurðardóttir í Aþenu árið 2021.

Myndlistarhátíðin HEAD2HEAD hófst í Reykjavík undir lok viku og stendur til sunnudags. Hátíðin er, skv. tilkynningu, flennistór í sniðum en opnaðar verða sýningar 30 grískra og íslenskra myndlistarmanna sem fram fara í átta listamannareknum sýningarrýmum víðsvegar um borgina.

Hátíðin er annar liður í tveggja þátta sýningarverkefni. Fyrri hluti þess fór fram í Aþenu í nóvember árið 2021 þar sem 43 grískir og íslenskir listamenn sýndu verk sín í 11 listamannareknum sýningarrýmum. HEAD2HEAD varð til úr samtali sýningar­rýmanna Kling & Bang í Reykjavík og A-DASH í Aþenu um að tengja saman þessar tvær stórmerkilegu myndlistarsenur, að því er segir í tilkynningunni.

Sýningarrýmin sem taka þátt í hátíðinni í Reykjavík eru Gallerí Kannski, Associate Gallerí, Kling & Bang, Nýlistasafnið, OPEN house í Norræna Húsinu, Gallerí Fyrirbæri, Gallerí Undirgöng og Bókumbók sem er nýtt sýningarrými.