Myndband af Svíanum Torbjörn Svensson, þar sem hann hvetur son sinn áfram á fótboltaleik, hefur vakið mikla athygli. Myndbandinu var deilt á Instagram þar sem hann deilir reynslu sinni sem einstaklingur með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Í texta við myndbandið talar hann um mikilvægi þess að taka þátt í lífi barna sinna, sama hvernig aðstæður eru, en hann lætur fötlun sína ekki stoppa sig í að styðja son sinn. „Það er ómetanlegt fyrir mig að geta tekið þátt í leikjum Hugos. Því ég nýt þess að vera þarna og hvetja son minn með stolti,“ segir Torbjörn við myndbandið þar sem hann fær aðstoð túlks til að skilja hvað er að gerast í leiknum án þess að sjá eða heyra nokkuð. Túlkurinn notar bak Torbjörns til að miðla þessum upplýsingum um leikinn. Myndbandið má sjá í jákvæðum fréttum á K100.is.