— AFP/Prakash Mathema

Sérpanum Nima Rinji var fagnað sem þjóðhetju í gær á flugvellinum í Katmandú, höfuðborg Nepal, en hann varð í síðustu viku yngsti maðurinn til þess að klífa 14 hæstu tinda heims, sem allir eiga það sameiginlegt að vera 8.000 metra háir eða meira.

Nima Rinji, sem er einungis 18 ára að aldri, sló metið á miðvikudaginn var en þá náði hann tindi Shisha Pangma-fjallsins, en það er 8.027 metra hátt. Fjölmenni beið eftir honum við komuna til Katmandú, og sagðist fjallgöngugarpurinn vera mjög hamingjusamur í gær.

Tindarnir 14 eru allir annaðhvort í Himalaja- eða Karakoram-fjallgörðunum, sem báðir eru í Asíu. Þykir mikið afrek að ná að klífa þá alla, þar sem oft skapast lífshættulegar aðstæður í fjallgörðunum.