Efnileg Bergdís Sveinsdóttir var í stóru hlutverki hjá Víkingi.
Efnileg Bergdís Sveinsdóttir var í stóru hlutverki hjá Víkingi. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Bergdís Sveinsdóttir, miðjumaður úr Víkingi, var besti ungi leikmaðurinn í Bestu deild kvenna keppnistímabilið 2024, samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins.

Bergdís fékk flest M af leikmönnum undir tvítugu, fæddum 2005 og síðar, samtals 11 M, en hún lék 21 af 23 leikjum Víkingsliðsins í deildinni.

Hún er 18 ára gömul en var samt fyrirliði Víkingsliðsins í sjö leikjum í deildinni og skoraði þrjú mörk fyrir nýliðana sem komu skemmtilega á óvart og náðu besta árangri félagsins frá upphafi, þriðja sætinu.

Í fyrra var Bergdís líka í stóru hlutverki, aðeins 17 ára, þegar Víkingur vann 1. deildina og varð ennfremur bikarmeistari, öllum að óvörum, en þá var hún markahæsti leikmaður liðsins í deildinni með níu mörk.

Bergdís hefur leikið 37 leiki með yngri landsliðum Íslands og skorað í þeim níu mörk og hún er í landsliðshópi U23 ára kvenna sem mætir Finnlandi í tveimur vináttulandsleikjum síðar í þessum mánuði.

Víkingur á þrjá leikmenn í úrvalsliði

...