Vonsvikinn Andri Lucas Guðjohnsen veit að úrslitin eru ráðin þegar Tyrkirnir fagna sínu fjórða marki á Laugardalsvellinum í gærkvöld.
Vonsvikinn Andri Lucas Guðjohnsen veit að úrslitin eru ráðin þegar Tyrkirnir fagna sínu fjórða marki á Laugardalsvellinum í gærkvöld. — Morgunblaðið/Eyþór

Glæsilegt jöfnunarmark frá Andra Lucasi Guðjohnsen stuttu fyrir leikslok dugði ekki íslenska karlalandsliðinu í fótbolta til að ná í stig gegn sterku liði Tyrklands í Þjóðadeildinni á Laugardalsvellinum í gærkvöld.

Tyrkir skoruðu tvisvar í lokin og sigruðu 4:2. Þar með á Ísland ekki lengur möguleika á að vinna riðilinn og þarf nú að einbeita sér að því að halda þriðja sætinu í tveimur síðustu umferðunum í nóvember þegar leikið verður við Svartfjallaland og Wales á útivöllum.

Leikurinn var bráðfjörugur, Ísland skapaði sér mörg góð marktækifæri og var lengi vel með forystuna eftir mark frá Orra Steini Óskarssyni strax á þriðju mínútu. En í síðari hálfleik voru Tyrkir mun sterkari, fengu tvær vítaspyrnur og skoruðu fjögur mörk og unnu verðskuldaðan sigur þegar upp var staðið. » 27