Vatn Nýárssund í Nauthólsvík.
Vatn Nýárssund í Nauthólsvík. — Morgunblaðið/Styrmir Kári

Í tilefni af alþjóðlegum degi ­óáþreifanlegs menningararfs verður haldið málþing í Þjóðminjasafni Íslands á morgun, fimmtudag, kl. 13-16 um lifandi hefðir í nýju ljósi. „Flutt verða fjölbreytt erindi um hefðir, siði og handverk og sýnd verður stuttmynd um íslenska sundlaugamenningu. Kvikmyndin var framleidd í tilefni þess að íslensk sundlaugamenning var tilnefnd á lista UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns,“ segir í tilkynningu. Þar kemur fram að myndinni, sem kemur nú í fyrsta sinn fyrir sjónir almennings, sé ætlað að sýna fjölbreyttar hliðar sundlaugamenningarinnar. „Umsókn Íslands fer fyrir valnefnd UNESCO núna í desember en afdrif umsóknarinnar verða ekki ljós fyrr en 2026.“ Meðal frummælenda eru Sigurlaug Dagsdóttir verkefnisstýra, Einar Jóhann Lárusson tréskipasmiður og Jón Jónsson þjóðfræðingur. Aðgangur er ókeypis.