Birgir Ármannsson forseti Alþingis gerir ráð fyrir þingfundi á fimmtudag. Hann segist hafa upplýst þingflokksformenn um að hann sjái ekki fram á þingfund í dag en geri ráð fyrir þingfundi klukkan 10.30 á morgun. Hann muni þá hitta þingflokksformenn í dag til að ræða fyrirkomulagið að öðru leyti. Aðspurður segir Birgir að í þingrofsbréfi forseta komi fram kjördagur, sem forsætisráðherra geri tillögu til forseta um, sú dagsetning sem þingrofið taki gildi, því litið sé svo á að þó tilkynnt sé um þingrof á tilteknum tíma þá rofni þingið ekki fyrr en á kjördegi. „Það er þá dagsetning sem felur bæði í sér þann dag sem þingrofið tekur gildi og sama dag er kosið.“ Hann segir 45 daga frest til að ganga til kosninga byrja að telja þegar tilkynnt sé um þingrof, annaðhvort með því að forsetabréf sé lesið upp á Alþingi eða það birt í Stjórnartíðindum.