Vélmenni með þrjá arma, sem líkir eftir hreyfingum hljómsveitarstjóra, hefur nú litið dagsins ljós og þreytt frumraun sína í þýsku borginni Dresden, að því er fram kemur í frétt á vef AFP fréttastofunnar
Einn armurinn á vélmenninu.
Einn armurinn á vélmenninu.

Vélmenni með þrjá arma, sem líkir eftir hreyfingum hljómsveitarstjóra, hefur nú litið dagsins ljós og þreytt frumraun sína í þýsku borginni Dresden, að því er fram kemur í frétt á vef AFP fréttastofunnar. Stýrði það flutningi á verki sem hannað var sérstaklega fyrir það og miðað við getu þess og flutt af sínfóníuhljómsveit Dresden.

Vélmennið er með þrjá arma sem halda á litlum sprotum sem þykja minna á geislasverðin í Stjörnustríði. Vélmennið getur greint ólíkan takt og hraða í tónlist og hreyfast handleggirnir í samræmi við það. Verkið sem flutt var er eftir tónskáldið og píanóleikarann Andreas Gundlach og var pantað af hljómsveitinni. Mun vélmennið hafa notað alla þrjá arma sína við hljómsveitarstjórnina sem er ekki á færi nokkurrar manneskju. Vísindamenn við tækniháskóla í Dresden þróuðu vélmennið og tók tvö ár að „þjálfa“ það, ef svo mætti segja.