Óvíst er hvenær verður hægt að hefja neyðarvistun á Stuðlum að nýju eftir að bruni kom upp í húsnæði Stuðla á laugardagsmorgun.

17 ára barn lést í brunanum og starfsmaður slasaðist. Starfsmaðurinn hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi og er líðan hans eftir atvikum.

Eldurinn kom upp í herbergi vistmanns í neyðarvistun og er sú álma ónýt. Viðgerðir munu taka marga mánuði og hefur öll starfsemi verið færð tímabundið yfir í húsnæði Vogs, en þar er einungis aðstaða fyrir meðferðardeildina, ekki neyðarvistun. Unnið er að því að útbúa bráðabirgðaaðstöðu fyrir þá starfsemi.

Einhver börn sem voru í neyðarvistun fóru heim en þau sem höfðu ekki kost á því fóru á meðferðardeildina.

Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, segir það hafa gengið vel að færa starfsemi Stuðla yfir á Vog.