— AFP/Lukas Coch

Karl 3. Bretakonungur og Kamilla drottning fóru í gær í opinbera heimsókn til Ástralíu, þá fyrstu síðan Karl varð konungur og þjóðhöfðingi Ástralíu. Konungshjónin fengu víðast hvar höfðinglegar móttökur.

Eftir að Karl ávarpaði ástralska þingið gerði þó einn þingmaður, Lidia Thorpe, hróp og köll að konungi. Thorpe, sem er af áströlskum frumbyggjaættum, hrópaði m.a. að Bretar hefðu stundað „þjóðarmorð“ gegn frumbyggjum. Þá sagði hún að Ástralía væri ekki land Karls, og hann væri ekki konungur þess. Thorpe var vísað út af þingvörðum.

Violet Sheridan, einn af öldungum Ngunnawal-ættbálksins, sagði eftir atvikið að Thorpe hefði orðið sér til skammar, og að hún hefði ekki talað fyrir sig eða fyrir fjölskyldu Sheridan.