Afmælisbarnið Umhverfishagfræðingurinn og rithöfundurinn undirbýr um þessar mundir vornámskeið við Endurmenntun HÍ.
Afmælisbarnið Umhverfishagfræðingurinn og rithöfundurinn undirbýr um þessar mundir vornámskeið við Endurmenntun HÍ.

Steinn Kárason fæddist 22. október 1954 í foreldrahúsum á Skógargötu 3b á Sauðárkróki og ólst upp á Króknum til sextán ára aldurs. Sauðárkrókur var þá sjávarþorp við fjörð sem fóstraði blómlegar sveitir. Nánd við sjó og sjómenn, bændur og búalið myndaði bakgrunn æsku Steins og litaði lífið. Leiksvið barnanna var bærinn undir Nöfunum, fjaran og bryggjurnar.

„Eins og algengt var á þessum árum var ég sendur í sveit. „Það þurfti að bjarga barninu frá dvöl á götunni,“ sagði móðursystir mín við mig uppkominn. Aðallega var ég hjá móðurforeldrum mínum á Róðhóli í Sléttuhlíð en einnig á Höfðaströnd, í Kolbeinsdal og hjá föðursystur minni í Neðra-Ási í Hjaltadal. Tólf ára fékkst ég við tamningar, afgreiddi bensín hjá Hansenbræðrum og vann hjá kaupfélaginu og bænum. Ég var í byggingarvinnu, í sláturhúsi, við löndun á fiski og skipavinnu.“

...