Mótmæli á safninu.
Mótmæli á safninu.

Safnið National Gallery í London hefur ákveðið að banna gestum að hafa með sér vökva og stórar töskur. Eru þetta viðbrögð við endurteknum skemmdar­verkum mótmælenda á þekktum málverkum á borð við „Sólblóm“ Vincents van Gogh og „Heyvagninn“ eftir John Constable. Loftslagsaðgerðasinnar á vegum Just Stop Oil hafa sem dæmi hellt matvælum yfir þekkt málverk á safninu.

Í frétt Guardian um málið kemur fram að einungis þurrmjólk, brjóstamjólk og lyfseðilsskyld lyf verði leyfileg. Þá hefur málmleitarhliðum verið komið fyrir við alla innganga og leitað verður í töskum og bakpokum. Gestir eru beðnir að hafa eins lítið með sér og hægt er, og engar stórar töskur. Þá eru persónulegir munir með áróðri sem þykir móðgandi eða er tengdur samtökum sem þykja ógna safninu bannaðir.