— Morgunblaðið/Eyþór

Bleiki liturinn er ráðandi á Íslandi í október í tilefni af þeirri vitundarvakningu um krabbamein kvenna sem nú er efnt til. Krabbameinsfélag Íslands leiðir þetta starf og efnt er til ýmissa viðburða til áminningar. Í gærmorgun var vatnið í einum af heitum pottum Grafarvogslaugar í Reykjavík með bleikri blöndu eins og eftirtekt vakti. Gjörningur þessi mæltist vel fyrir meðal laugargesta, sem sýndu mikilvægu málefni dagsins áhuga. Í dag, 24. október, er svo Bleiki dagurinn og af því tilefni eru landsmenn hvattir til að bera Bleiku slaufuna, klæðast bleiku og lýsa skammdegið upp í bleikum ljóma svo að allar konur sem greinst hafa með krabbamein finni stuðning og samstöðu.