Jens Guðmundur Hjör­leifs­son fædd­ist í Hnífs­dal 13. nóvember 1927. Hann lést á Sólvöllum, Eyrarbakka 7. október 2024.

For­eldr­ar hans voru hjón­in Elísa­bet Þór­ar­ins­dótt­ir, f. 6. júlí 1902, d. 8. októ­ber 1953, og Hjör­leif­ur Stein­dórs­son, f. 29. mars 1895, d. 18. fe­brú­ar 1957.

Systkini Jens Guðmundar eru: Þorgeir f. 14. október 1924, d. 28. mars 2019, Stein­dór, f. 22. júlí 1926, d. 13. sept­em­ber 2012, Þór­ar­inn, f. 16. ág­úst 1930, d. 7. janú­ar 2003, og Elsa Hjör­dís, f. 6. sept­em­ber 1937.

Jens kvænt­ist Kristjönu Kristjáns­dótt­ur 10. nóvem­ber 1949. Hún var fædd 11. desember 1929, d. 19. desem­ber 2016. For­eldr­ar henn­ar voru Sigríður Tryggvadóttir, f. 23. septem­ber 1900, d. 16. desember 1942, og Kristján Jónsson, f. 28. mars 1906, d. 22. ágúst 1975.

Börn Jens og Kristjönu eru fjögur: 1) Sigríður Ingibjörg, f. 29. apríl 1950, maki Bárður Guðmundsson, f. 27. október 1950. Börn þeirra eru fimm: Guðmundur, f. 29. nóvember 1969, d. 31. október 2018. Kristjana Hrund, f. 16. nóvember 1972, Jens Hjörleifur, f. 20. ágúst 1979, Helgi, f. 20. desember 1982, og Hlynur f. 20. desember 1982. Barnabörnin 10 og barnabarnabörnin þrjú. 2) Elísabet, f. 16. september 1952, maki Rúnar Jökull Hjaltason, f. 3. október 1950. Börn þeirra eru þrjú, Guðlaug Harpa, f. 5. febrúar 1975, Kristján Jens, f. 6. janúar 1978, og Óskar Atli, f. 6. nóvember 1981. Barnabörnin eru níu. 3) Hjörleifur Kristinn, f. 7. ágúst 1955. Maki Ólöf Jóna Þórarinsdóttir, f. 1. febrúar 1958. Synir þeirra tveir, Þórarinn, f. 4. ágúst 1980, og Jens Guðmundur, f. 8. apríl 1987. Barnabörnin eru fjögur. 4) Aðalheiður, f. 20. nóvember 1964, sambýlismaður Lúðvík Kaaber, f. 21. janúar 1967. Börn Aðalheiðar með fv. maka, Davíð Guðmundssyni, f. 25. mars 1964, eru fjögur, Guðmundur, f. 9. október 1987, Hjörleifur, f. 22. maí 1990, Nanna Berglind, f. 22. mars 1994, og Guðjón Kristinn, f. 17. ágúst 2007. Barnabörnin eru þrjú.

Jens hóf skólagöngu í barnskólanum í Hnífsdal, síðan lá leiðin í Reykjanesskóla. Hann fór ungur tvo vetur á vertíð til Akraness. Hann vann í framhaldi af því við beitningar heima í Hnífsdal á veturna og stundaði sjómennsku á sumrin. Hann fer að starfa við fiskmat og fullmenntar sig í því.  Hann vann lengi við þau störf og ráðinn sem yfirfiskmatsmaður á Vestfjörðum á vegum Ríkismats sjávarafurða. Hann var mikill verkalýðssinni. Hann var í sóknarnefnd og á tíma meðhjálpari í Hnífsdalskapellu. Hann var mikill jafnaðarmaður alla tíð og átti sæti í hreppsnefnd Eyrarhrepps, sem síðan sameinaðist Ísafirði 1971.

Þau hjón bjuggu allan sinn búskap í Hnífsdal þar til 1983 að þau fluttu til Reykjavíkur og vann Jens áfram hjá Ríkismatinu til 1. janúar 1993, er sú stofnun var lögð niður. Árið 2005 fluttu þau hjón á Selfoss til að vera nær afkomendum sínum, sem bjuggu þar og í Vestmannaeyjum. Aðaláhugamál hans síðustu árin var að fylgjast með knattspyrnu og pólitík.

Útför Jens Guðmundar fer fram frá Selfosskirkju í dag, 23. september 2024, klukkan 13.

Í dag kveð ég afa minn, Jens Guðmund Hjörleifsson. Hann fæddist þann 13. nóvember 1927 í húsinu að Ísafjarðarvegi 4 í Hnífsdal, hvar hann bjó alveg þangað til hann og amma fluttu til Reykjavíkur 1983. Afi var sonur hjónanna Hjörleifs Steindórssonar sjómanns og fiskmatsmanns og Elísabetar Þórarinsdóttur húsfreyju, þau áttu fimm börn; Þorgeir Adolf, Steindór Gísla, Jens Guðmund (afa), Þórarin Kristin og Elsu Hjördísi. Bræðurnir eru nú allir farnir í sumarlandið.

Afi var alltaf duglegur til vinnu, fór í sveit níu ára gamall og var mikið með pabba sínum á trillunni. Hann elskaði sjóinn og byrjaði að vinna upp á hlut, eins og það var kallað, aðeins 15 ára gamall. Hann var á sjó til ársins 1963, þá kom hann í land og gerðist fiskmatsmaður. Þau voru skemmtileg sjómannsárin og hefur afi sagt mér margar sögur af dansleikjunum á Akranesi, fótboltakeppninni og gleðinni fram á morgun á sjómannadaginn, síldarárunum og margt fleira.

Afi var í heimavistarskóla í Reykjanesi sem unglingur og voru strákarnir settir í straff, tveggja tíma lærdóm, ef náðist í þá stelast yfir á stelpuvistina. Það var mikill agi í Reykjanesinu en það þurfti ekki mikið að aga afa minn, enda mjög rólegur maður að eðlisfari. Hann leið nú samt enga leti og var aldrei latur sjálfur. Hann var verkstjóri í Ísfélaginu á Ísafirði og þar komust strákarnir ekki upp með neitt hangs.

1968 var afi orðinn yfirfiskmatsmaður Vestfjarða og ferðaðist í vinnu sinni um alla Vestfirðina og var lítið heima. Eftir að hann flutti til Reykjavíkur fór hann svo að ferðast um allt land að meta fisk. Afa var sagt upp vinnunni þegar hann var bara rúmlega sextugur og var ástæðan sögð skortur á menntun, nú yrðu allir yfirmenn að vera með háskólamenntun. Að sögn afa tóku við drengir með háskólapróf, sem höfðu nánast aldrei snert fisk. Afi vann eitt ár í Vestmannaeyjum en settist svo í helgan stein. Árið 2005 fluttu þau amma í Grænumörkina á Selfossi. Þá byrjaði ég að heimsækja þau á hverjum föstudegi og þar var alltaf til vestfirskur hjallaþurrkaður harðfiskur og smjör og ís í frystinum handa langafa- og langalangafabörnunum.

Eftir að afi og amma fluttu á Selfoss snerust hlutverk þeirra við, eftir að hafa verið mikið að heiman í gegnum tíðina var afi farinn að sjá um eldamennskuna og hin ýmsu heimilisstörf. Afi bjó t.d. til bestu fiskibollur í heimi. Afi minn var líka pólitískur og var eitthvað viðriðinn hreppapólitíkina í gamla daga. Hann vildi meina að það væri ekkert varið í alþingi lengur, því í gamla daga þá þorðu menn að rífast almennilega um málefnin, nú til dags væri lítið púður í umræðunum.

Eftir að amma dó 2016 hélt ég áfram að heimsækja afa á föstudögum og kynntist honum betur og meira í hverri viku og hafa þessar föstudagsstundir verið mér afar dýrmætar. Það er erfitt að keyra fram hjá Grænumörkinni eftir föstudagslesturinn á Móbergi og koma ekki við og heyra nýjustu tíðindi frá alþingi eða einhverja skemmtilega sögu frá því í gamla daga.

Elsku afi var tilbúinn að kveðja, hann hafði alltaf verið mjög heilsuhraustur, stundaði gönguskíði á veturna, synti á hverjum degi þangað til fyrir nokkrum árum, en ástæðan fyrir því var að hann gat ekki verið með heyrnartækin og því ekki spjallað í pottinum. Afi fór líka í göngutúra á hverjum degi, en fyrir tveimur árum fékk hann hjartaáfall, sem enginn skildi hvernig hann lifði af og eftir það fór að draga af honum, hann hélt samt áfram að ganga eins og hjartað leyfði. Hann lét aldrei neitt stoppa sig og hélt áfram á vestfirsku þrjóskunni, sem ég erfði frá honum og er stolt af.

Elsku afi, nú ertu loksins kominn til ömmu og þið alveg örugglega dansandi saman eins og ykkur einum var lagið. Þúsund þakkir fyrir allt sem þú hefur kennt mér og aðstoðað mig með í gegnum tíðina, sérstaklega síðastliðin tvö ár. Þín verður sárt saknað.

Þín afastelpa,

Kristjana Hrund Bárðardóttir.