Mótmæli Fangelsun Watsons var mótmælt við ráðhúsið í París í gær.
Mótmæli Fangelsun Watsons var mótmælt við ráðhúsið í París í gær. — AFP/Grégoire Campone

Héraðsdómur í Nuuk á Grænlandi féllst í gær á kröfu grænlensku lögreglunnar um að aðgerðasinninn Paul Watson sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 13. nóvember. Watson hefur setið í varðhaldi í Nuuk frá því í júlí eða í 100 daga.

Réttarsalurinn í Nuuk var þéttsetinn þegar málið var tekið fyrir, að því er kemur fram á vefnum sermitsiaq.ag. Saksóknari grænlensku lögreglunnar taldi nauðsynlegt að hafa Watson áfram í gæsluvarðhaldi, ella væri hætta á að hann færi úr landi.

Watson var handtekinn þegar skip hans kom til Nuuk í júlí á grundvelli handtökuskipunar sem alþjóðalögreglan Interpol gaf út árið 2012 að beiðni Japans. Japanar hafa krafist þess að Watson verði framseldur þangað til að svara til saka fyrir aðgerðir gegn japönskum hvalveiðiskipum árið 2010. Danska dómsmálaráðuneytið hefur enn ekki tekið afstöðu til framsalskröfunnar.