— AFP/Adem Altan

Þrír af þeim fimm sem létust í árásinni á hergagnaframleiðandann TAI í Ankara í fyrradag voru bornir til grafar í gær. 22 særðust í árásinni auk þeirra fimm sem féllu, og voru 14 þeirra enn á sjúkrahúsi í gær.

Tyrknesk stjórnvöld lýstu því yfir í fyrrakvöld að kúrdískir aðskilnaðarsinnar bæru „mjög líklega“ ábyrgð á árásinni, og voru báðir árásarmennirnir, maður og kona, sagðir tengdir kúrdísku aðskilnaðarsamtökunum PKK.

Tyrkneski herinn gerði loftárásir á stöðvar Kúrda í bæði Írak og í Sýrlandi í hefndarskyni í fyrrinótt, og sagði varnarmálaráðuneytið að flugherinn hefði ráðist á 47 skotmörk tengd „hryðjuverkamönnum“. Talsmenn kúrdísku YPG-samtakanna í Sýrlandi sögðu að 12 óbreyttir borgarar hefðu fallið í árásum Tyrkja.