Barokkfiðla Halla Steinunn Stefánsdóttir veitir innsýn í vinnu sína.
Barokkfiðla Halla Steinunn Stefánsdóttir veitir innsýn í vinnu sína. — Ljósmynd/Curtis Perry

„Hvernig hljómar snjallfiðlu­flytjendaverkvangur?“ er spurning sem velt er upp í tilkynningu þar sem jafnframt segir að í kvöld, föstudaginn 25. október, verði mögulegt að heyra dæmi um slíkt þegar barokkfiðluleikarinn Halla Steinunn Stefánsdóttir stígi á svið í Mengi. „Tónleikarnir veita innsýn í vinnu hennar við Intelligent Instruments Lab í Reykjavík sem helgað er skapandi starfi með gervigreind. Sem lið í þeirri tilraunamennsku hefur Halla Steinunn valið efni sem lagt er til grundvallar þjálfunar á módelum gegnum m.a. svokallaðan Neural Audio Synthesis af Victor Riley Shepardson og Nicola Privato og Neural ­Spectral Synthesis af ­Davíð Brynjari Franzsyni.“ Þá mun Victor Riley Shepardson einnig stíga á svið með Höllu Steinunni og taka þátt í spuna. Húsið er opnað kl. 19:30 en tónleikarnir hefjast klukkan 20 og er miðaverð fyrir fullorðna 2.500 krónur en 2.000 krónur fyrir börn, nemendur og eldri borgara.