Í London Egill á leiðinni á tónleika með hljómsveitinni ELO á Wembley árið 2017.
Í London Egill á leiðinni á tónleika með hljómsveitinni ELO á Wembley árið 2017.

Egill Már Markússon fæddist 25. október 1964 í Reykjavík. Hann bjó á Holtsgötu en flutti 1967 með foreldrum sínum á Seltjarnarnes.

Egill gekk í Mýrarhúsaskóla og Valhúsaskóla og varð svo stúdent frá MR 1984. Hann æfði fótbolta og handbolta með Gróttu og var í skátunum. „Á sumrin vann ég á ýmsum stöðum, fyrsta vinnan var í fiski hjá fiskverkun Skúla sumarið 1976, síðar var ég m.a. í Bæjarútgerðinni og svo fjögur sumur á lager SÍS í Holtagörðum.“

Eftir stúdentspróf vann Egill einn vetur í Spörtu á Laugaveginum en vorið 1985 fékk hann vinnu sem aðstoðarmaður í flugstjórnarmiðstöðinni á Reykjavíkurflugvelli. Árið 1986 var hann sendur ásamt sjö öðrum nemum til Cornwall í Kanada til að læra flugumferðarstjórn. Hann kom til baka í nóvember sama ár og kláraði þjálfun á Keflavíkurflugvelli og útskrifaðist sem flugumferðarstjóri í maí 1987.

...