Tónlistarkonan Hrafnhildur Magnea Ingólfsdóttir, RAVEN, kemur fram í Hannesarholti í kvöld, 25. október, kl. 20 ásamt gítarleikaranum Mikael Mána Ásmundssyni. Í tilkynningu segir að frá árinu 2017 hafi RAVEN samið og gefið út frumsamin lög. Hún hafi síðan útskrifast úr djassnámi í Amsterdam árið 2023 og sé nú búsett á Íslandi.

„Tónlist hennar einkennist af fallegum, melankólískum laglínum þar sem textarnir eru í forgrunni og endurspegla tilfinningar sem flestir þekkja,“ segir þar jafnframt. „Mikael Máni og Hrafnhildur kynntust í Amsterdam og tónlistarsamstarf þeirra einkennist af sameiginlegum áhuga á textum og túlkun.“ Miða má finna á tix.is.