Ekki veit ég hvaða bækur ég tæki með mér á eyðieyju en ég veit hvaða bækur ég kom með til eyjunnar suður af Aþenu þar sem ég dvel nú. Fyrst fór niður Það liðna er ekki draumur eftir grísk-sænska rithöfundinn Theodor Kallifatides. Bækur Kallifatides hafa haldið mér rígfastri síðan snemmsumars, en alls hafa þrjár bóka hans komið út á íslensku í feikigóðri þýðingu Halls Páls Jónssonar. Sagan er einstök uppvaxtarsaga höfundarins en ekki síður saga hugmynda og saga þjóðar. Það er afar áhugavert að kynnast Grikklandi í gegnum gleraugu Kallifaties. Ekki síst hrífst ég af myndrænu og oft bráðfyndnu líkingamáli en líka þeirri einlægni og mannskilningi sem einkennir sögur hans.

Tvíflautan eftir Jón Eyjólfsson er gáskafull og léttleikandi frásögn af fjölskrúðugum hópi fólks sem tengist veitingahúsi og menningarsetri í Aþenu sem bókin dregur nafn sitt af. Þar gegnir hinn ungi Jón starfi sendils sem gengur þó í

...