Mín eigin samsýning, málverkasýning Karls Jóhanns Jónssonar, er opnuð í Gallerí Fold í dag, laugardaginn 26. október, klukkan 14. Í tilkynningu segir að titill sýningarinnar vísi til fjölbreytileika verkanna og þeirra ólíku myndefna sem Karl Jóhann fæst við
Mín eigin samsýning Titillinn vísar m.a. til fjölbreytileika verkanna.
Mín eigin samsýning Titillinn vísar m.a. til fjölbreytileika verkanna.

Mín eigin samsýning, málverkasýning Karls Jóhanns Jónssonar, er opnuð í Gallerí Fold í dag, laugardaginn 26. október, klukkan 14. Í tilkynningu segir að titill sýningarinnar vísi til fjölbreytileika verkanna og þeirra ólíku myndefna sem Karl Jóhann fæst við. Má þar nefna portrettmyndir, landslagsmyndir og uppstillingar, en að sögn Karls eiga myndefnin það sameiginlegt að vera sprottin út frá persónulegri nostalgíu og þeirri myndlistarstefnu sem hann hefur sterkastar taugar til, raunsæisstefnunnar eða realismans. „Yfirskrift sýningarinnar vísar til þessarar nostalgíu Karls Jóhanns gagnvart þeim viðfangsefnum sem hann velur sér og eru samtíningur af ýmsum toga. Viðfangsefnin vekja að hans sögn ljúfsára kennd sem hann sækist eftir, eins og til dæmis slitnir gúmmískór, heiðarleg pulsa í brauði, krúttlegt þrastar­hreiður eða nýþveginn þvottur úti á snúru; einhvers konar fortíðarþrá í einföldum hversdagsleikanum.“