Volodimír Selenskí forseti Úkraínu kom til Íslands í gær til að ræða við leiðtoga Norðurlandanna og leita Úkraínumönnum stuðnings gegn innrás Rússa í febrúar 2022.
Stríðið í Úkraínu hefur staðið allt of lengi og það er hryggilegt að horfa upp á mannfallið og eyðilegginguna sem hefur átt sér stað í landinu. Innrásin var glórulaus og framganga Rússa óréttlætanleg með öllu.
Í gær birtust myndir frá bænum Vovtsjansk í Úkraínu, sem er nokkra kílómetra frá rússnesku landamærunum. Bærinn hefur nánast verið jafnaður við jörðu. Uppi standa rústir, nánast eins og beinagrindur húsa, ömurlegur vitnisburður um glópsku og grimmd Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta.
Selenskí kemur hingað til lands þegar farið er að gæta þreytu vegna stríðsins í Úkraínu. Það er ekki jafn áberandi í fréttum og áður. Stuðningurinn við Úkraínu er ef til vill jafn afdráttarlaus í orði og áður, en buddurnar eru ekki jafn opnar.
Pútín ætlar ekki að nema staðar í Úkraínu. Hann seilist
...