Aðalmeðferð hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær í stóru fíkniefnamáli vegna glæpahóps sem grunaður er um innflutning, vörslu, sölu og dreifingu fíkniefna. Sakborningar málsins eru 15. Þeir voru upprunalega 18 en þrír ákærðu hafa játað sök og hafa mál þeirra því verið skilin frá stóra málinu. Nokkrir sakborninganna hafa játað brot sitt að hluta.
Málið hefur verið kallað Sólheimajökulsmálið og er þar vísað til spjallhóps nokkurra sakborninga, sem nefndur var eftir jöklinum.
Jón Ingi Sveinsson, annar höfuðpauranna í málinu, var fyrstur til að gefa skýrslu fyrir dóminum. Karl Ingi Vilbergsson saksóknari bar undir hann tengsl við hina átta sakborningana sem ákærðir eru fyrir fyrsta kafla ákærunnar, þ.e.a.s. stórfellt fíkniefnabrot. Hann sagði flesta vera vini, vinkonur eða kunningja.
...