Sigtryggur Rósmar Eyþórsson framkvæmdastjóri lést 27. október síðastliðinn, 83 ára að aldri.
Sigtryggur Rósmar fæddist í Reykjavík 8. júlí 1941, ólst þar upp og bjó alla ævi. Foreldrar hans voru Eyþór Magnús Bæringsson kaupmaður og Fjóla Jósefsdóttir húsmóðir.
Sigtryggur lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Vesturbæjar 1958 og hóf sama ár störf hjá Póststofunni í Reykjavík. Þegar vinnudegi lauk rak hann Frímerkjastofuna á Vesturgötu 14 eða frá árinu 1960 til 1966. Hann starfaði í Kaupmannahöfn hjá Jakobi Kvaran frímerkjakaupmanni frá byrjun árs 1962 og síðar það ár við verslunarstörf hjá Renault-bifreiðaumboðinu. Árið 1963 hóf hann störf hjá heildversluninni Eddu hf. og starfaði þar sem sölustjóri í 11 ár. Árið 1974 hóf hann rekstur inn- og útflutningsfyrirtækisins XCO hf. og var framkvæmdastjóri þess þar til hann lét af störfum vegna aldurs. Hann var ræðismaður Slóveníu frá 2001 til 2019.
Sigtryggur átti sæti í nefndum og stjórnum nokkurra fyrirtækja.
...