Kvartett trompetleikarans Iris Kramer verður með tónleika í Björtuloftum Hörpu í kvöld kl. 20. Tónleikarnir eru haldnir á vegum Jazzklúbbsins Múlans. Iris Kramer hefur komið víða við á tónlistarferli sínum og stofnaði meðal annars fyrstu stórsveit Þýskalands sem var eingöngu skipuð konum. Kvartettinn flytur bæði frumsamið efni og íslenska tónlist. Tónlistin er sögð létt og leikandi sveifla undir áhrifum frá íslenskri náttúru, veðurfari og menningu. Sérstakur gestur á tónleikunum verður Hlín Pétursdóttir Behrens söngkona og með þeim eru Jonas Oppermann á píanó, Henriette Thorunn bassaleikari og slagverksleikarinn Jan Hauf. Þá mun kvartettinn einnig halda tónleika í sal Tónlistarskóla Árnesinga á Selfossi kl. 20 annað kvöld og í Hjálmakletti, Borgarnesi, föstudaginn 1. nóvember kl. 20.30. Tónleikarnir eru styrktir af þýska sendiráðinu á Íslandi, Íslendingafélaginu í Hamborg og Jazzbüro Baden Württemberg.