Rússneska varnarmálaráðuneytið tilkynnti í gær að rússneski herinn hefði náð yfirráðum í námubænum Selídóve og nærliggjandi þorpum. Sókn rússneska hersins hefur verið hörð í austurhluta Úkraínu og bara í þessum mánuði hefur hann náð á sitt vald 478 ferkílómetrum, sem hefur ekki verið meira síðan í mars 2022.
Nokkrum klukkustundum áður en yfirvöld í Moskvu tilkynntu landvinninga sína í austurhluta Úkraínu drápu loftárásir þeirra fjóra í næststærstu borg Úkraínu, Karkív, um 30 kílómetra frá rússnesku landamærunum að sögn borgarstjórans, Igors Terekhovs.
Einnig skemmdust nærri tveir tugir bygginga, þ. á m. hin móderníska bygging Derzhprom, sem er einn fyrsti skýjakljúfur gömlu Sovétríkjanna.
Þá létu tveir lífið í árásum Rússa í Kerson og einn lést í árás á Ódessu í suðurhluta Úkraínu. doraosk@mbl.is