Andrí Síbíha, utanríkisráðherra Úkraínu, skoraði í gær á vesturveldin að veita Úkraínumönnum leyfi til þess að beita langdrægum eldflaugum af vestrænni gerð gegn skotmörkum í Rússlandi. Kom ósk hans í kjölfar þess að norðurkóreskir hermenn birtust í Kúrsk-héraði reiðubúnir til átaka við Úkraínuher.
Sagði Síbíha á friðarráðstefnu í Montreal að þátttaka Norður-Kóreu í innrás Rússa kallaði á sterk viðbrögð bandamanna og að Úkraínumenn hefðu rétt til sjálfsvarnar. Þá ítrekaði hann að eldflaugunum yrði einungis beitt gegn hernaðarlegum skotmörkum. Espen Eide, utanríkisráðherra Noregs, tók undir kröfur Síbíha.