Sýningin Móska var opnuð í gær, en um er að ræða lokaverkefni Ara Alexanders Ergis Magnússonar kvikmyndagerðarmanns í meistaranámi í sýningagerð við Listaháskóla Íslands. Í Mósku leiðir Ari saman þrjár listakonur með þverfaglegan bakgrunn, þær Gabríelu Friðriksdóttur, Katrínu Þorvaldsdóttur og Kjuregej Alexöndru Argunovu, sem er móðir Ara. Sýningin endurspeglar langt ferli þar sem listakonunum er fylgt eftir á vinnustofum sínum og í samtölum og segja má að nálgunin sé í anda fyrri heimildarmynda Ara. Í sýningartexta kemur fram að listsköpun listakvennanna, sem fæddar eru á ólíkum stöðum og tímum, sé mótuð og innblásin af ólíkum menningaráhrifum. Verk þeirra séu á köflum annars heims og túlki meðal annars dulmögn og galdur. Sýningin er á Hverfisgötu 60 og er opin frá 14-18, þessa helgi og næstu.