Úthald Pete Townshend, gítarleikari The Who, staðfestir í samtali við The Standard að bandið lífseiga muni koma úr dvala á næsta ári. „Ég hitti Roger [Daltrey söngvara] yfir hádegisverði fyrir tveimur vikum. Við erum í fínu formi og unnum hvor öðrum. Það er farið að braka svolítið í okkur en við munum klárlega gera eitthvað á næsta ári,“ segir Townshend sem er 79 ára. Daltrey stendur á áttræðu. Spurður hvort ný plata sé í kortunum svarar Townshend því til að hann væri til í tuskið en Daltrey hafi meiri efasemdir. „Kannski þarf ég að pína hann til þess,“ segir hann og bætir við að líklegt sé að tónleikar The Who verði tónaðir niður, það er ekki með stórri hljómsveit.