„Ég varð hrygg þegar hún dó, enda þótt ég vilji sjálf ekki láta klóna mig,“ segir sveitasöngkonan sívinsæla Dolly Parton í breska blaðinu The Guardian, spurð um viðbrögð hennar þegar klónaða sauðkindin Dolly féll frá. „Ég vil komast héðan þegar það verður í boði,“ heldur hinn upprunalega Dolly áfram. „Nóg er víst um tvífara Dollyjar, að ekki sé talað um allar dragdrottningarnar. Ég get þess vegna sent þær út í búð fyrir mig.“
Dolly kveðst hafa orðið upp með sér þegar kindin fræga var nefnd í höfuðið á henni. Klónaða fruman kom úr mjólkurkirtli og þess vegna segir Dolly menn hafa hugsað til sín. „Menn voru sífellt að velta þessum fyrir sér,” sagði hún við Guardian og benti á brjóst sér. „Þannig fengum við kindina Dolly.“
Dolly hin klónaða fæddist 1996 en dó 2003. Einhvern veginn er ekki við hæfi að nota orðið „drapst“ í þessu samhengi.