Í Veröld – húsi Vigdísar bíður hin suðurkóreska Yeonji Ghim með glænýja barnabók sína fyrir framan sig. Yeonji, sem er frá stórborginni Seúl, kynntist íslenskum manni í Japan þegar hún var þar í námi. Þau fluttu heim til Íslands árið 2015 og nú er Yeonji í doktorsnámi hér, auk þess að vera móðir eins árs drengs, Jóhanns. Yeonji, borið fram Jonsjí, er upptekin kona í krefjandi námi en fann þó tíma til að láta gamlan draum rætast, að skrifa barnabók sem fékk titilinn Einmanalegasta hús í heiminum. Yeonji notar skáldanafnið Y. G. Esjan.
Alein í heiminum í Vogum
„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á norrænni menningu og þegar ég var í námi í Japan sótti ég gjarnan viðburði þar sem norræn málefni voru á dagskrá. Þar eignaðist ég marga vini frá Norðurlöndunum. Og í framhaldi hitti ég hinn íslenska eiginmann minn, Hafþór, og við fluttum svo hingað.
...