Ég er miklu sjaldnar nú einmana en áður. Auðvitað verð ég stundum einmana, en nú sé ég það ekki endilega sem eitthvað neikvætt. Einmanaleikinn er hluti af mannlegri reynslu og hann hjálpaði mér að skapa afar fallega sögu.
Yeonji er bæði vísindamaður og barnabókahöfundur.
Yeonji er bæði vísindamaður og barnabókahöfundur. — Morgunblaðið/Ásdís

Í Veröld – húsi Vigdísar bíður hin suðurkóreska Yeonji Ghim með glænýja barnabók sína fyrir framan sig. Yeonji, sem er frá stórborginni Seúl, kynntist íslenskum manni í Japan þegar hún var þar í námi. Þau fluttu heim til Íslands árið 2015 og nú er Yeonji í doktorsnámi hér, auk þess að vera móðir eins árs drengs, Jóhanns. Yeonji, borið fram Jonsjí, er upptekin kona í krefjandi námi en fann þó tíma til að láta gamlan draum rætast, að skrifa barnabók sem fékk titilinn Einmanalegasta hús í heiminum. Yeonji notar skáldanafnið Y. G. Esjan.

Alein í heiminum í Vogum

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á norrænni menningu og þegar ég var í námi í Japan sótti ég gjarnan viðburði þar sem norræn málefni voru á dagskrá. Þar eignaðist ég marga vini frá Norðurlöndunum. Og í framhaldi hitti ég hinn íslenska eiginmann minn, Hafþór, og við fluttum svo hingað.

...