Portúgalinn Rúben Amorim hefur verið ráðinn nýr knattspyrnustjóri Manchester United. Skrifaði hann í gær undir samning sem gildir til tæplega þriggja ára, sumarsins 2027. Manchester-félagið hefur möguleika á að framlengja samninginn einhliða um eitt ár til viðbótar. Amorim tekur ekki strax við, lýkur fyrst störfum sínum hjá Sporting í Lissabon, en tekur svo við þann 11. nóvember næstkomandi. Portúgalinn er 39 ára gamall og hefur stýrt Sporting frá árinu 2020.