Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur miklar áhyggjur af fréttum um að herlið frá Norður-Kóreu hafi verið sent til Rússlands og möguleikanum á því að það taki þátt í stríðinu í Úkraínu. Bandaríska leyniþjónustan hefur sagt að hersveitir Norður-Kóreumanna séu komnar til Kúrsk við landamærin að Úkraínu. Stjórnvöld í Bandaríkjunum og í Suður-Kóreu hafa hvatt Norður-Kóreumenn til að draga herlið sitt til baka. Hvorki Norður-Kóreumenn né Rússar hafa neitað fréttum um herflutningana. Guterres segir að allt verði að gera til þess að koma í veg fyrir að önnur lönd dragist inn í stríðið.